Innlent

Lóan er komin

Sylvía Hall skrifar
Alex Máni náði þessari mynd af lóunni í fjörunni í morgun.
Alex Máni náði þessari mynd af lóunni í fjörunni í morgun. Alex Máni

Vorboði þjóðarinnar, heiðlóan, er komin. Til hennar sást í fjörunni á Stokkseyri í morgun, en fyrstu fregnir af lóunni komu einnig frá Stokkseyrarfjöru fyrir tveimur árum.

„Já, ég er forfallinn fuglaskoðunarfíkill,“ segir Alex Máni Guðríðarson sem kom auga á lóuna í morgun, aðspurður hvort hann sé viss um þar hafi verið lóa á ferð. „Það er alveg hægt að treysta því.“

Þá voru einnig fjórar blesgæsir einnig á Stokkseyri í dag. 

Akkúrat tvö ár eru liðin frá því að lóan kom með vorið árið 2019 og greinilegt að þær kunna vel við sig í fjörunni á Stokkseyri.

Lóan er einkennisfugl íslenskra móa og útbreiddur varpfugl um land allt og einnig á hálendinu. Lóan er vaðfugl sem verpir einkum á þurrum stöðum, mólendi og grónum hraunum. Hún er jafnframt talin einn helsti vorboðinn hér á landi þar sem jafnan er vísað í ljóð Páls Ólafssonar sem flestir kannast við.

Lóan er komin að kveða burt snjóinn,

að kveða burt leiðindin, það getur hún.

Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,

sólskin í dali og blómstur í tún.

Hún hefir sagt mér til syndanna minna,

ég sofi of mikið og vinni ekki hót.

Hún hefir sagt mér að vakna og vinna

og vonglaður taka nú sumrinu mót.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×