Innlent

Uppfært: Enginn úr Laugarnesskóla greindist með veiruna í gær

Atli Ísleifsson skrifar
Starfsmaður við Laugarnesskóla greindist með kórónuveiruna á sunnudag og síðan hafa tólf nemendur hið minnsta greinst.
Starfsmaður við Laugarnesskóla greindist með kórónuveiruna á sunnudag og síðan hafa tólf nemendur hið minnsta greinst. Vísir/Vilhelm

Skólastjórnendur í Laugarnesskóla hafa fengið þær upplýsingar að enginn nemandi hafi greinst í sýnatöku vegna kórónuveirunnar í gær. Áður töldu þeir sig vita að einhverjir hefðu greinst.

Björn Gunnlaugsson, aðstoðarskólastjóri Laugarnesskóla, tjáði Vísi á ellefta tímanum að foreldrum hefðu verið sendar upplýsingar um að smituðum hefði fjölgað. Í framhaldinu hafði hann aftur samband við Vísi og sagði að um misskilning hefði verið að ræða. 

Smitrakningarteymið hefði haft samband og tjáð honum að enginn úr skólanum hefði greinst í sýnatöku í gær. Greinilegt var á Birni að honum var létt með þessi uppfærðu tíðindi.

Starfsmaður í skólanum greindist með kórónuveiruna á sunnudag og daginn eftir greindist svo nemandi. Á þriðjudag greindust svo ellefu nemendur til viðbótar. Stærstur hluti nemenda í 6. bekk skólans eru nú í sóttkví og sömuleiðis strákar í 5. flokki Þróttar.

Einn smitaður í Laugalækjarskóla

Í Laugalækjarskóla hafa allir nemendur og starfsfólk verið send í sóttkví eftir að nemandi í 8. bekk skólans greinst með kórónuveiruna í gærkvöldi. Jón Páll Haraldsson skólastjóri sagði í samtali við Vísi upp úr klukkan 10 að ekki hafi fengist upplýsingar um að fleiri nemendur hafi greinst með veiruna.

Vegna þessa fjölda smita í Laugarneshverfinu hafa leikskólabörn á Laugasól og Hofi einnig verið send í úrvinnslusóttkví.

Í Laugarnesskóla eru nemendur í 1. til 6. bekk, en í Laugarlækjaskóla eru nemendur í 7. og upp í 10. bekk.

Fréttin var uppfærð klukkan 10:45.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×