Viðskipti innlent

Opna bar og veitinga­stað í hús­næði Skel­fisk­markaðarins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Húsnæðið sem áður hýsti Skelfiskmarkaðinn er stórt og rúmgott en nýir leigutakar hyggast gera miklar breytingar á útliti og innréttingum.
Húsnæðið sem áður hýsti Skelfiskmarkaðinn er stórt og rúmgott en nýir leigutakar hyggast gera miklar breytingar á útliti og innréttingum. Björn Árnason

Þeir Arnar Þór Gíslason, Andri Björnsson, Logi Helgason og Óli Már Ólason hyggjast opna annars vegar bar og hins vegar veitingastað að Klapparstíg 28-30.

Um er að ræða tvo aðskilda staði sem eiga að opna í sumar en Skelfiskmarkaðurinn opnaði í húsnæðinu árið 2018. Honum var hins vegar lokað í mars 2019 eftir að tugir gesta fengu matareitrun á staðnum nokkrum mánuðum fyrr.

Greint er frá málinu í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál, í dag. Þar segir að þeir Arnar Þór, Andri, Logi og Óli Már taki húsnæðið á leigu en þeir reka nú þegar nokkra staði í miðbæ Reykjavíkur, þar á meðal veitingastaðinn Kol, barinn Irishman og Kalda bar.

Óli Már segir í samtali við Markaðinn að húsnæðið við Klapparstíg sé stórt. Þeir vilji „þétta stemninguna“ og ætli því að skipta húsnæðinu upp í tvo aðskilda staði.

Þá verður ráðist í miklar breytingar á útliti og innréttingum að sögn Óla Más en segja má að öllu hafi verið tjaldað til þegar Skelfiskmarkaðurinn var innréttaður á sínum tíma þar sem marmari var meðal annars áberandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×