Fótbolti

Tveir sigrar, jafn­tefli og tap hjá Ís­lendinga­liðunum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla lék allan leikinn í 3-1 sigri í dag.
Glódís Perla lék allan leikinn í 3-1 sigri í dag. Vísir/Getty Images

Íslenskt landsliðsfólk í knattspyrnu var í eldlínunni í dag. Úrslitin voru jafn mismunandi og þau voru mörg.

Glódís Perla Viggósdóttir var á sínum stað í byrjunarliði Rosengård sem vann 3-1 sigur á Vittsjö í fyrstu umferð sænska bikarsins. Leikið er í fjórum riðlum og fer efsta lið hvers riðils áfram í undanúrslit.

Sverrir Ingi Ingason var í hjarta varnar PAOK er liðið tapaði 2-1 fyrir Panathinaikos í grísku úrvalsdeildinni. Tapið þýðir að PAOK er dottið niður í 4. sæti deildarinnar með 47 stig eftir 26 leiki.

Mikael Neville Anderson lék allan leikinn er Midtjylland gerði markalaust jafntefli á útivelli við FC Kaupmannahöfn í dönsku úrvalsdeildinni í dag. Midtjylland er sem fyrr í öðru sæti með 40 stig, fjórum stigum á eftir Bröndby sem vann góðan sigur á OB í dag.

Þá spilaði Willum Willumsson síðustu sautján mínúturnar í öruggum 3-0 sigri BATE Borisov á Slutsk í Hvít-Rússnesku úrvalsdeildinni í dag. Um var að ræða fyrsta leik nýs tímabils og byrja BATE menn því af krafti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×