Körfubolti

„Glover klúðrar þessu sjálfur með því að vera sjálfselskur“

Atli Arason skrifar
Baldur Þór [t.h.] er þjálfari Tindastóls
Baldur Þór [t.h.] er þjálfari Tindastóls Vísir/Daniel Thor

Baldur Þór var sáttur með liðsheildina að loknum sigrinum í Njarðvík. Hann hafði lítinn áhuga að ræða Shawn Glover sem er nú horfinn á braut.

„Ég er hrikalega ánægður með sigur á útivelli,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Tindastóls, í viðtali strax eftir leik áður en hann bætti við,

„Varnarleikurinn var góður en svo er þetta bara gaman. Það er skemmtilegt að vera saman, það er skemmtilegt að vera í liði. Liðsandinn er þannig að menn eru gefa hvorum öðrum orku. Menn eru skemmtilegir og það bara skilar þessu.“

Það hefur fátt verið eins umtalað og framkoma Shawn Glover í síðasta leik Tindastóls gegn KR þar sem óstaðfestar fregnir bárust að Glover hafi neitað að spila leikinn. Fyrir leik var Baldur spurður út í þetta þar sem hann talaði í kringum málið. Baldur svaraði einfalt og stutt, „Við erum komnir með nýjan mann og Glover fann hvað var í gangi. Hann er náttúrlega bara kominn heim til sín.“

Þetta mál er greinilega viðkvæmt því þegar gengið var á Baldur í viðtali eftir leik, hvort að Glover hefði í raun og veru neitað að spila leikinn brást Baldur ekki vel við.

„Ertu að spyrja mig sömu spurninguna og þú spurðir mig fyrir leik?“ spurði Baldur, áður en hann hélt áfram eftir að spyrill bað um skýrari svör.

„Honum þótti óþægilegt að spila með öðrum leikmönnum. Við fórum bara fyrir þetta en í sjálfu sér erum við bara komnir með annan flottan mann inn í þetta. Við vorum aldrei að fara í tveggja Kana dæmi. Glover klúðrar þessu sjálfur með því að vera sjálfselskur.“

Flenard Whitfield er Kaninn sem kom inn í lið Tindastóls fyrir Glover og Baldur er gífurlega ánægður með það hvernig Whitfield kemur inn í liðið.

„Þetta er allt annað líf, allt annað kemestrí. Þetta er gaman,“ svaraði Baldur aðspurður um Whitfield.

Stólarnir eru eftir þennan sigur í kvöld búnir að jafna Val að stigum í sjöunda til áttunda sæti en næsti leikur Tindastóls er einmitt gegn Val á Hlíðarenda.

„Í sjálfu sér er þetta bara einn leikur í einu. Deildin er öll erfið og það skiptir ekki máli hvern þú ert að spila við. Valsmenn eru að koma út úr tveimur góðum sigrum og ég reikna bara með hörku leik,“ sagði Baldur að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×