Tugir þúsunda Nýsjálendinga yfirgáfu heimili sín á áttunda tímanum í gærkvöldi að íslenskum tíma eftir að stærðarinnar jarðskjálfti reið yfir sem mældist 8,1 að stærð.
Íbúar sem búa nærri strandlengju á Norðureyju Nýja-Sjálands fengu smáskilaboð þar sem þeim var sagt að yfirgefa heimili sín eins fljótt og hægt væri. Þeim var ráðlagt að leita inn í land og leita skjóls helst í góðri hæð.
Mikil skelfing greip um sig þegar sírenur voru settar af stað og í hátalarakerfi mátti heyra sagt að ekki væri um æfingu að ræða.
Lækkað viðbúnaðarstig þýðir að fólkið getur nú snúið aftur heim en í viðvöruninni er þó tekið fram að fólk skuli halda sig alfarið frá sjávarsíðunni þar til hættan er liðin hjá.
Á blaðamannafundi í gær sagði Bill Fry, jarðskjálftafræðingur, að stóri jarðskjálftinn hefði riðið yfir nánast fyrirvaralaust. Hann sagði að á hans þrettán ára ferli hefði hann aldrei upplifað aðra eins skjálftalotu.