Skoðun

Ekki þetta frelsi

Starri Reynisson skrifar

Dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingu á áfengislögum. Þetta er ágætt frumvarp sem ég vona að hljóti brautargengi, en það er samt himinn og haf milli þess og þeirra góðu breytinga sem ráðherrann boðaði upphaflega.

Upprunalegi tilgangur þessa frumvarps var að leyfa innlenda netverslun með áfengi og jafna þannig samkeppnisstöðu íslenskra brugghúsa gagnvart erlendum söluaðilum. Það er þó ekki tekið á því í núverandi mynd frumvarpsins, heldur brugghúsum aðeins leyft að selja sínar vörur á framleiðslustað. Gott skref, en lítið.

Það kemur þó engum á óvart að upprunaleg mynd frumvarpsins hafi lagst illa í Vinstri Græn og Framsókn, Sjálfstæðisflokkurinn skýlir sér á bak við það og ekki í fyrsta sinn. Það er orðið algengt mynstur að Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki í gegn þeim frelsismálum sem hann segist berjast fyrir. Svo algengt að það gefur tilefni til að efast um vilja flokksins til að ná þeim í gegn. Væri til dæmis raunverulegur vilji fyrir því hjá Sjálfstæðisflokknum að leyfa sölu áfengis í matvöruverslunum væri það löngu samþykkt, en flokkurinn hefur aldrei lagt þunga sinn að baki því heldur aðeins notað sem skrautfjöður fyrir einstaka þingmenn.

Svo eru það einna helst frelsismál sem kljúfa Sjálfstæðisflokkinn. Öflugustu andstæðinga frelsis á leigubílamarkaði má til að mynda finna í þingflokki Sjálfstæðismanna og all nokkrir þingmenn flokksins greiddu atkvæði gegn frumvarpi um aukinn sjálfsákvörðunarrétt kvenna til þungunarrofs, þeirra á meðal formaður flokksins, og beittu þar svipuðum rökum og systurflokkur þeirra í ríkisstjórn Póllands. Þá eru ótalin málin þar sem frelsinu er alveg kastað fyrir róða, svo sem í landbúnaði þar sem flokkurinn styður óbreytt kerfi, himinháa tolla og stendur dyggan vörð um einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar.

Áslaug Arna er vissulega öflugur talsmaður frelsis, nema reyndar í útlendingamálum, það verður ekki af henni tekið. Það gefur þó augaleið að frelsisþenkjandi fólk getur ekki treyst Sjálfstæðisflokknum, það kjarnaði Brynjar Níelsson ágætlega þegar hann botnaði ræðu gegn niðurlagningu mannanafnanefndar með orðunum: „Ég trúi ekki á þetta frjálslyndi!“

Höfundur er forseti Uppreisnar, ungliðahreyfingar Viðreisnar




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×