Eiginmaður Freyju Egilsdóttur játaði í dag á sig að hafa myrt hana þegar hann var leiddur fyrir dómara. Hann hefur verið úrskurðaður í 4 vikna gæsluvarðhald.
Freyja var búsett að Veilgårdsparken í danska smábænum Malling þar sem hún fannst látin í nótt. Dönsk vinkona hennar sagði í samtali við fréttastofu að þar hefði hún búið í þó nokkur ár ásamt eiginmanni sínum og tveimur börnum, en þau höfðu slitið samvistum. Þau hefðu sjálf byggt húsið fyrir nokkrum árum.
Lögregla fór að gruna eiginmanninn um að eiga hlut í hvarfi Freyju eftir að hafa rætt við hann þegar hann lýsti eftir henni í gær. Í framhaldinu fór í gang mikil leit að Freyju þar sem bæði voru notaðir drónar og þyrlur. Þá tóku fjölmargir bæjarbúar þátt í að leita að henni í gær.
Lögregla fann Freyju svo í og við heimili sitt í nótt.
Danskir vinir Freyju sem fréttastofa heyrði í dag voru harmi slegnir. Vinkona hennar sagði í samtali við fréttastofu:
„Freyja var með mér í mömmuklúbb og var vinsæl og átti marga vini í bænum. Við erum í áfalli yfir þessu, þetta er alveg hræðilegt.“
Annar vinur Freyju sagði að blóm og kerti hefði farið að streyma að heimili Freyju um leið og fregnir bárust að því að hún væri látin.
Freyja skilur eftir sig 10 ára son og 5 ára dóttur, móður og systur.
Danskur vinur minnist Freyju Egilsdóttur með eftirfarandi orðum á Facebook í dag.
„Hvil i fred, kære ven. Jeg vil mindes dit kærlige væsen, din humor og din hjertevarme, og med tiden håber jeg, at det savn, det chok og den smerte, vi er mange, der sidder med lige nu, bliver mildnet, og kun de gode minder står skarpt tilbage“.