Viðskipti innlent

Eva Bergþóra stýrir samskiptum hjá borginni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir er á leiðinni heim til Íslands til að stýra samskiptateymi Reykjavíkurborgar.
Eva Bergþóra Guðbergsdóttir er á leiðinni heim til Íslands til að stýra samskiptateymi Reykjavíkurborgar.

Eva Bergþóra Guðbergsdóttir hefur verið ráðin í starf teymisstjóra samskiptateymis Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram á vef Reykjavíkurborgar. Eva Bergþóra er búsett í Kaliforníu í Bandaríkjunum þar sem hún hefur meðal annars verið fréttaritari Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar.

Eva Bergþóra er með BA í ensku og stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og hefur lokið MA gráðu í alþjóðasamningagerð og MPA gráðu í stjórnsýslufræðum frá Middlebury Institute of International Studies. Eva Bergþóra hefur víðtæka reynslu af samskipta- og upplýsingamálum og hefur starfað sem aðstoðarfréttastjóri á Stöð 2 og Bylgjunni, og áður sem fréttamaður bæði á Stöð 2 og RÚV.

Eva Bergþóra hefur síðastliðinn áratug starfað hjá samskiptasviði Middlebury háskólans í Kaliforníu, nú síðast sem deildarstjóri þar sem hennar starf snýr að upplýsingamiðlun, gerð markaðsefnis fyrir vef og samskiptamiðla, stefnumótun ásamt innri og ytri samskiptum. Eva Bergþóra er jafnframt aðjúnkt við skólann.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×