Innlent

Tveir greindust innan­lands og tíu á landa­mærum

Atli Ísleifsson skrifar
Um sex þúsund hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins.
Um sex þúsund hafa greinst með kórónuveiruna hér á landi frá upphafi faraldursins. Vísir/Vilhelm

Tveir greindust með kórónu­veiruna innan­lands í gær. Annar þeirra sem greindist var í sóttkví, en hinn ekki. Tíu greindust á landamærum.

Þetta kemur fram í uppfærðum tölum á síðunni covid.is. Alls eru nú átján á sjúkrahúsi vegna Covid-19 og enginn á gjörgæslu. Í gær voru tuttugu á sjúkrahúsi og þar af enginn á gjörgæslu.

Tíu greindust smitaðir á landamærum í gær – einn með virkt smit í fyrri skimun, einn í seinni skimun, þrír mældust með mótefni og er niðurstöðu mótefnamælingar beðið í tilvikum fimm.

116 manns eru nú í einangrun, samanborið við 127 í gær. Þá eru 247 í sóttkví í dag, samanborið við 149 í gær. 1.267 eru nú í skimunarsóttkví.

Nýgengi innanlandssmita, þ.e. fjöldi smitaðra á hverja 100 þúsund íbúa undanfarnar tvær vikur, er nú 14,7, en var 15,5 í gær. Nýgengi landamærasmita er nú 22,4, en var 25,4 í gær.

Alls hafa 5.975 manns greinst með kórónuveiruna hér á landi frá því faraldurinn hófst í lok febrúar. Þá hafa 29 dauðsföll verið rakin til Covid-19 á Íslandi frá upphafi faraldursins.

Alls voru tekin 650 einkennasýni hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og Íslenskri erfðagreiningu í gær og 447 sýni á landamærunum eða í seinni landamæraskimun.

Fréttin hefur verið uppfærð




Fleiri fréttir

Sjá meira


×