Skoðun

Hvert er Ferðaklúbburinn 4x4 að stefna?

Halldór Kristinsson skrifar

Ég verð að viðurkenna að mér líst ekki á það hvert Ferðaklúbburinn 4x4 er að stefna og dreg það stórlega í efa að allir félagar hans séu sammála þeirri afstöðu, sem komið hefur fram að undanförnu, að segja sig frá og mæla gegn hugmyndum um náttúruvernd. Hefur einhver könnun verið gerð á því hversu margir félagsmenn eru sammála þessari hörðu afstöðu klúbbsins?

Yfirlýst afstaða klúbbsins gegn þjóðgörðum og nú síðast úrsögn úr Landvernd er lýsandi dæmi um vænisýki (e.paranoia) og sleggjudóma sem því miður er allt of algeng í dag í svo mörgum málum. Yfirlýsing klúbbsins, sem undirrituð er af formanni hans, vegna úrsagnar úr Landvernd er til dæmis algerlega órökstudd og ber keim sömu öfga og þeir væna samtökin sjálf um. Þar er fullyrt að: “ Stefna Landverndar undanfarin ár hefur verið öfgakennd og markast af harðlínu sem farið hefur út fyrir svið náttúruverndar..” Það væri afar upplýsandi ef formaðurinn segði okkur hvar og hvenær Ferðaklúbburinn 4x4 hefur orðið fyrir barðinu á þessari öfgakenndu stefnu Landverndar.

Eitt af markmiðum Ferðaklúbbsins 4x4, sem fest eru í lög hans, er: “Að stuðla að náttúruvernd og sjálfbærri ferðamennsku um náttúru Íslands”. Ég sé ekki að úrsögn úr Landvernd og yfirlýst andstaða gegn þjóðgarði á hálendinu samrýmist þessu markmiði. Hvernig hyggst klúbburinn ná þessum markmiðum sínum að stuðla að náttúruvernd?

Ef klúbburinn ætlar sér ekki að einangrast og fá á sig ímynd öfga jeppasamtaka gegn náttúruvernd, þarf hann að taka þátt í umræðunni og vera þáttakandi í henni á þann hátt að trúverðugt sé. Ekki með illa ígrunduðum yfirlýsingum sem ganga gegn markmiðum hans. Klúbburinn ætti frekar að koma fram með ábyrgar tillögur og ályktanir sem ræddar hafa verið á félagsfundum og samrýmast markmiðum hans í stað þess að mála sig útí horn og fá á sig ímynd andstæðinga náttúrverndar. Því ég held að þegar öllu er á botninn hvolft séu langflestir félagar klúbbsins í hjarta sínu náttúruverndarfólk og vilja stuðla að því að komandi kynslóðir geti upplifað óspjallaða náttúru landsins eins og við getum ennþá gert í dag.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×