Fótbolti

Norrköping staðfestir kaupin á Finni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Finnur Tómas Pálmason þreytir frumraun sína í atvinnmennsku hjá Norrköping.
Finnur Tómas Pálmason þreytir frumraun sína í atvinnmennsku hjá Norrköping. vísir/bára

Sænska úrvalsdeildarliðið Norrköping hefur gengið frá kaupunum á Finni Tómasi Pálmasyni frá KR.

Hjá Norrköping hittir Finnur fyrir Skagamennina Oliver Stefánsson og Ísak Bergmann Jóhannesson. Nokkrir aðrir Íslendingar hafa leikið með liðinu og má þar meðal annars nefna Arnór Sigurðsson, leikmann CSKA Moskvu.

„Ég er mjög ánægður að vera hér. Margir Íslendingar hafa spilað fyrir Norrköping og ég hef heyrt svo góða hluti um félagið. Ég vil þroskast sem leikmaður hérna og hjálpa liðinu að ná árangri,“ sagði Finnur á heimasíðu Norrköping.

Finnur sló í gegn með KR tímabilið 2019. KR-ingar urðu þá Íslandsmeistarar með yfirburðum og Finnur var valinn besti ungi leikmaður Pepsi Max-deildarinnar.

Finnur, sem er nítján ára miðvörður, lék 36 leiki fyrir KR í deild og bikar og skoraði tvö mörk. Þá lék hann tíu leiki með Þrótti í Inkasso-deildinni 2018.

Norrköping endaði í 6. sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×