Lögleiðing fíkniefna – Velferð, skattheimta og frelsi Haukur Viðar Alfreðsson skrifar 6. janúar 2021 07:30 Covid faraldurinn hefur kostað samfélagið okkar og ríkið miklar fjárhæðir nú þegar og útlit er fyrir mikil útgjöld af hálfu ríkisins á næstu árum vegna faraldursins. Því hefur undanfarið verið rætt um mikilvægi þess að snúa vörn í sókn og finna nýjar leiðir til þess að afla tekna hér á landi. Af því tilefni ætla ég að ræða hér um kosti, galla og líklegar afleiðingar á lögleiðingu margra þeirra vímu- og fíkniefna sem eru ólögleg á Íslandi í dag. Þar sem að umræðan um lögleiðingu ólöglegra vímu- og fíkniefna (fíkniefni héðan af) er oft á tímum erfið og viðkvæm sökum þess hversu sterkar skoðanir margir hafa á viðfangsefninu og það ekki af ástæðulausu, ætla ég að taka fram að þrátt fyrir að tala fyrir lögleiðingu slíkra fíkniefna er ég ekki að mæla með neyslu þeirra, enda hef ég persónulega aldrei notað ólögleg fíkniefni. Hinsvegar vil ég sjálfum mér og náunganum vel og því vil ég fá skatta í ríkiskassann af sölu efnanna, ég vil gott framleiðslueftirlit með efnunum, ég vil öflugri forvarnir, ég vil fækka óþarfa dauðsföllum, ég vil aukin meðferðarúrræði, ég vil skapa lögleg störf, ég vil losna við hörku undirheimanna og ég vil að fullorðið fólk hafi sinn sjálfsákvörðunarrétt. Það má ná framförum á öllum þessum sviðum með því að lögleiða sum eða öll þau fíkniefni sem í dag eru ólögleg. Fyrir sumum er það augljóst en fyrir öðrum hljómar það eins og þvættingur, þá í síðarnefnda hópnum hvet ég sérstaklega til að lesa áfram með gagnrýnum hug. Skattlagning fíkniefna Í hvert sinn sem keypt er vínglas á veitingarhúsi eða sígarettupakki er seldur úti í sjoppu hagnast ríkið. Ástæðan er einföld, sala á áfengi og sígarettum er lögleg að uppfylltum vissum skilyrðum og því fær ríkið virðisaukaskatt af sölunni auk ýmissa annarra gjalda og mögulega skatt af hagnaði þess sem selur ef reksturinn gengur vel. Þetta er hinsvegar ekki raunin þegar keypt eru ólögleg fíkniefni. Ríkið fær ekkert úr þeim viðskiptum. Og þau viðskipti eru umtalsverð en samkvæmt Ríkislögreglustjóra er ólögleg starfsemi (fíkniefnaviðskipti og mannsal) áætluð um tíu milljarðar á ári á Íslandi. Mér þykir það mikið óráð að leyfa þessum fíkniefnamarkaði að vera óskattlögðum. Salan er að eiga sér stað alveg óháð því hvað fólki finnst um það (meira um það neðar), svo er þá ekki lágmark að ríkið fái skatttekjur eins og af allri annarri seldri vöru og þjónustu sem má þá nota til að stemma stigu við neikvæðum áhrifum fíknaefnaneyslu og að draga úr neyslunni? Í dag er það þannig að öll spítala- og meðferðarúrræði, allt eftirlit lögreglu með innflutningi, vörslu og dreifingu fíkniefna, öll fangelsisvist og annar kostnaður ríkisins sem til er komin vegna fíkniefnaneyslu eða vegna þess að efnin eru ólögleg er greitt fyrir með sköttum sem eru innheimtir af annarri vinnu/sölu en af fíkniefnum. Þannig ekki bara verðum við af skatttekjum af sölu fíkniefnanna heldur tökum við part af annarri skattheimtu til að greiða fyrir þessa hluti. Ef fíkniefni, ákveðin hluti eða öll, væru gerð lögleg myndi ríkið fá þaðan miklar tekjur enda er marg milljarða sala á efnunum á hverju ári. Því til viðbótar væri hægt að lækka útgjöld ríkisins þar sem minni þörf væri á fíkniefnalögreglu og rekstri fangelsa, en einnig má nefna að samfélagið sjálft verður vitanlega af tekjum þeirra sem gætu verið að stunda vinnu en dúsa á bak við lás og slá í staðinn. Skatttekjurnar mætti síðan nota til þess að auka forvarnarstarf, meðferðarúrræði, sálfræðiþjónustu, læknisþjónustu og ýmislegt fleira sem sár þörf er á. Dauðans alvara fíkniefna Þau sem vilja hafa og halda fíkniefnum ólöglegum gera það flest eflaust af góðu, mörg hugsandi að með því að hafa efnin ólögleg sé hægt að minnka framboðið á þeim, halda þeim frá þeim sem myndu annars lenda í vítahring neyslu. Hugsunin er góð en ef marka má þróun seinustu áratuga er hún því miður óskhyggja. Neysla á hinum ýmsu fíkniefnum hefur stöðugt aukist þrátt fyrir harða bannstefnu yfirvalda í flestum löndum og úr hefur orðið mikið fíkniefnastríð með stjarnfræðilegum kostnaði og mannfalli sem mælist í hundruðum þúsunda, auk allra þeirra sem láta lífið við neyslu fíkniefnanna. Fíkniefnastríðið er ekki bara erlent fyrirbæri og Íslandi ótengt. Sala á ólöglegum vörum kallar á aðra svarta starfsemi, svo sem handrukkanir þar sem ómögulegt er fyrir seljendur að leita réttar síns frammi fyrir dómstólum eða með innheimtubréfi frá Mótus eða öðrum löglegum leiðum. Sala á fíkniefnum á Íslandi er heldur ekki öll sprottin frá sjálfbærri íslenskri framleiðslu. Salan kallar á samstarf við erlenda aðila, réttar sagt erlend glæpasamtök. Eftirspurn okkar eftir fíkniefnum knýr þannig áfram þau blóðugu átök sem eiga sér stað í fíkniefnastríðinu erlendis svo lengi sem við kjósum að hafa þessi efni ólögleg. Einföld leið til þess að hugsa þetta er að velta fyrir sér hvers vegna klassískar mafíósa myndir gerast allar á fyrrihluta tuttugustu aldarinnar? Svarið er einfalt. Á þeim tíma var ólöglegt að selja áfengi í Bandaríkjunum. Allt smygl, ólögleg landaframleiðsla og jakkafataklæddu mafíósarnir með sitt ofbeldi urðu að finna sér eitthvað annað að gera þegar áfengið var gert löglegt. Og þrátt fyrir einhverskonar skynjað mikilvægi þess að hafa áfengi ólöglegt á sínum tíma virðist samfélagið ekki hafa farið á hliðina við lögleiðinguna. Þvert á móti er það nú stærðarinnar iðnaður og áfengi selt undir eftirliti til fullorðinna einstaklinga sem geta bæði neytt áfengis, leitað meðferðar eða hvað sem er án nokkurra áhyggna um að það muni koma í bakið á þeim, þau lent í fangelsi, sætt sektum eða misst af atvinnutækifærum. Nýlegra dæmi er svo að nokkur fylki í Bandaríkjunum hafa á undanförnum árum lögleitt sölu á kannabisi án þess að allt fari úr böndunum, það er raunar kominn þangað stærðarinnar iðnaður. En dauðsföll af völdum fíkniefna eru ekki bara í fíkniefnastríðinu sjálfu heldur láta margir lífið af neyslu fíkniefna, til að mynda létu að minnsta kosti 29 einstaklingar á Íslandi lífið vegna ofskömmtunar á seinasta ári. Öll viljum við að þessi tala fari niður í núll, enginn á að þurfa láta lífið með þessum hætti. Það hefur gefist vel í baráttunni við reykingar að beita öflugum forvörnum. Frá árinu 1989 til dagsins í dag hefur hlutfall Íslendinga sem reykja lækkað úr um 33% niður í 8,5%. Það var þó ekki ráðist í að gera sígarettur ólöglegar, við treystum heldur á forvarnir og sjáum að það skilar góðum árangri. Lögleiðing á fíkniefnum myndi getað skilað inn skatttekjum til þess að fjármagna öflugar forvarnir. Annar mjög mikilvægur þáttur sem að lögleiðing slíkra efna myndi skila væri stöðluð og eftirlitsskyld framleiðsla á efnunum. Í dag lúta fíkniefni engum gæða- eða hreinlætisstöðlum. Þau eru plöntur ræktaðar í ýmsum gróðurhúsum eða hitabeltislöndum, lyfjaframleiðsla sem fer fram í Kitchenaid hrærivél uppi á eldhúsborði í Vesturbænum þar sem verið er að blanda sem efnum sem pressa á í pillur, íblöndunarefni sem ekki eru tilgreind og geta verið allt frá öðrum sterkari fíkniefnum, mjólkursykri og yfir í þvottaduft. Áfengi fer hinsvegar í gegnum staðlað framleiðsluferli í höndum fagfólks þar sem gerðar eru ríkar kröfur. Lyfjafyrirtæki hafa einnig mjög ströng framleiðsluferli, hver einasta Panodil tafla inniheldur mjög nákvæman skammt af virka efni töflunnar. Það gera töflur af MDMA, E pillum og fleira hinsvegar ekki, því þær eru framleiddar uppi á eldhúsborði í Vesturbænum en ekki hjá Actavis. Það er ómögulegt að segja hvort tvær eins útlítandi fíkniefnatöflur innihalda einu sinni sama fíkniefni, hvað þá sama styrkleika. Svo spurningin er því: Hvort viljum við að þau sem ákveða að taka inn fíkniefni viti upp á hár hvað þau eru að innbyrða og geti fengið leiðbeiningar frá lyfsala eða að þau taki lyf sem kunna eða kunna ekki að vera lyfin sem þau ætluðu að taka inn? Fáir ætla sér að taka of stórann skammt af fíkniefnum, en það er enginn vafi um það að áhættan af því að taka óvart of stórann skammt eykst gríðarlega þegar þú veist ekkert um styrkleika efnisins sem þú ert að taka inn eða telur þig vera taka vægari skammt en er í raun í töflunni. Sjálfsákvörðunarréttur, fíknivandi og samfélagið Á Íslandi búum við við umtalsvert persónulegt frelsi. Partur af því er að fullorðnu fólki er gefið fullt frelsi til þess að drekka sig í hel, borða sætindi í slíku magni að við verðum akfeit og það stefni lífi þess í hættu sem og að reykja eins og strompar. En ef þú kýst að reykja jónu heima hjá þér á föstudagskvöldi er þér hollast að segja engum frá, við hin í samfélaginu líðum það nefnilega ekki án sekta eða refsinga. Þetta þykir mér ansi öfugsnúið og vil breyta. Ég vil sjálfur hafa frelsi til þess að gera það sem mig langar til svo lengi sem það skaðar ekki aðra og ég vil að aðrir njóti sama frelsis, jafnvel þó að þeir vilji gera hluti sem ég hef ekki áhuga á að gera. Ég er einnig þeirrar skoðunar að vel upplýst fullorðið fólk sé hæft til að taka eigin ákvarðanir, það sem stoppar mig frá því að nota fíkniefni er ekki það að þau séu ólögleg og ég held að það sé heldur ekki það sem stoppi aðra. Að minnsta kosti sýna tölurnar svart á hvítu að þeir sem vilja nota fíkniefni gera það alveg óháð því að þau séu ólögleg, til að mynda hefur um helmingur fólks á aldrinum 18-29 ára á Íslandi neytt fíknaefna og framboðið fer ekkert nema vaxandi og aðgengið verður auðveldara. En til eru þeir sem eiga við fíknivanda að stríða. Þá er freistandi að reyna loka á allt aðgengi þeirra að efnunum með boðum og bönnum og þannig bjarga þeim. En allt bendir til þess að það virki ekki. Allt það sem ég veit um fíknivanda með fíkniefni í gegnum kunningja, ástvini og það sem ég hef lesið bendir til þess að fíkniefnin sjálf séu ekki það sem skapi vandann. Fíkniefni virðast þverrt á móti vera notuð sem svar við öðrum vanda sem kann að vera í lífi fólks, svo sem áföllum, öðrum sjúkdómum, félagsaðstæðum o.fl. Svo ef að hugsunin er að aðstoða fólk í slíkum aðstæðum þá er nær að auka meðferðarúrræði, hjálpa fólki að fá rétta greiningu á sínum vanda og vinna úr honum með sálfræðingum, læknum eða öðrum eftir atvikum. Það gerir engum greiða að stimpla þá sem eru að reyna finna lausn á sínum vandamálum sem glæpamenn, sekta þá, fangelsa og stýra á verri braut. Lokaorð Í mínum huga er nokkuð ljóst að með því að hefja lögleiðingu á fíkniefnum (það er svo sér umræða hvaða efni það eigi nákvæmlega að vera og hvernig salan fer fram) mun ríkið fá tekjur og núverandi gjöld þess lækka. Svört starfsemi mun minnka til muna og lögleg störf munu skapast í þeirra stað. Ofbeldi í undirheimunum mun minnka. Velferð þeirra sem neyta fíkniefna mun aukast og þeim mun bjóðast betri og aðgengilegri úrræði. Hugað er betur að heilsu þeirra með ströngu framleiðsluferli og þeir sæta ekki refsingum sem gera lítið annað en að smána og leiða fólk til verri vegar. Það er löngu orðið tímabært að við horfumst í augu við raunveruleikann. Fíkniefnastríðið tapaðist fyrir mörgum árum, nú er tími til kominn að hætta að valda óþarfa vanlíðan í nafni þess að vera gera fólki gott með því að stinga höfðinu í sandinn. Ég átta mig á því að það er ekki gefið að fólk skipti auðveldlega um skoðun á málefnum eins og þessu. En það er hinsvegar ekkert að því að vilja skipta úr einni aðferð sem var ætlað að gera fólki gott yfir í nýja öflugri aðferð við að ná sama markmiði þegar manni berast nýjar upplýsingar og sjónarmið. Höfundur er viðskiptafræðingur og doktorsnemi í hagfræði. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Haukur V. Alfreðsson Kannabis Fíkn Mest lesið Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Tímamót Jón Steindór Valdimarsson Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir Skoðun Þarf alltaf að vera svín? Harpa Kristbergsdóttir Skoðun Skoðun Skoðun Hvað eru jólin fyrir þér? Hugrún Sigurjónsdóttir skrifar Skoðun Landið helga? Ingólfur Steinsson skrifar Skoðun Að sinna orkuþörf almennings Kristín Linda Árnadóttir skrifar Skoðun Tímamót Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Menntun fyrir Hans Vögg Þuríður Magnúsína Björnsdóttir skrifar Skoðun Þegar Samtök verslunar og þjónustu vita betur Erna Bjarnadóttir skrifar Skoðun Dans verkalýðsleiðtoga í kringum gullkálfinn Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Jól í sól versus jóla í dimmu Matthildur Björnsdóttir skrifar Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson skrifar Skoðun Kæri Grímur Grímsson – sakamaður gengur laus? Árni Guðmundsson skrifar Skoðun Er janúar leiðinlegasti mánuður ársins? Dagbjört Harðardóttir skrifar Skoðun Svar við hótunum Eflingar Sigurður G. Guðjónsson skrifar Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar Skoðun Manni verður kalt ef maður pissar í skóinn sinn Guðríður Eldey Arnardóttir skrifar Skoðun Skautun eða tvíhyggja? Þóra Pétursdóttir skrifar Skoðun Egóið er í hégómanum Skúli S. Ólafsson skrifar Skoðun Dæmalaus málflutningur Hjörtur J. Guðmundsson skrifar Skoðun Grýtt eða greið leið? Þröstur Sæmundsson skrifar Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar Skoðun Hugleiðing um listamannalaun III Þórhallur Guðmundsson skrifar Skoðun Dæmalaust mál Sigursteinn Másson skrifar Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar Skoðun Þegar Trölli stal atkvæðum Eyjólfur Ingvi Bjarnason skrifar Skoðun Forréttindablinda strákanna í Viðskiptaráði Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar Skoðun Tækifæri gervigreindar í menntun Páll Ásgeir Torfason skrifar Skoðun Sjálfstæð hugsun á tímum gervigreindar Árni Sigurðsson skrifar Skoðun Framtíð menntunar er í einkarekstri Unnar Þór Sæmundsson skrifar Skoðun Er lítil samkeppni á fjármálamarkaði? Gústaf Steingrímsson skrifar Sjá meira
Covid faraldurinn hefur kostað samfélagið okkar og ríkið miklar fjárhæðir nú þegar og útlit er fyrir mikil útgjöld af hálfu ríkisins á næstu árum vegna faraldursins. Því hefur undanfarið verið rætt um mikilvægi þess að snúa vörn í sókn og finna nýjar leiðir til þess að afla tekna hér á landi. Af því tilefni ætla ég að ræða hér um kosti, galla og líklegar afleiðingar á lögleiðingu margra þeirra vímu- og fíkniefna sem eru ólögleg á Íslandi í dag. Þar sem að umræðan um lögleiðingu ólöglegra vímu- og fíkniefna (fíkniefni héðan af) er oft á tímum erfið og viðkvæm sökum þess hversu sterkar skoðanir margir hafa á viðfangsefninu og það ekki af ástæðulausu, ætla ég að taka fram að þrátt fyrir að tala fyrir lögleiðingu slíkra fíkniefna er ég ekki að mæla með neyslu þeirra, enda hef ég persónulega aldrei notað ólögleg fíkniefni. Hinsvegar vil ég sjálfum mér og náunganum vel og því vil ég fá skatta í ríkiskassann af sölu efnanna, ég vil gott framleiðslueftirlit með efnunum, ég vil öflugri forvarnir, ég vil fækka óþarfa dauðsföllum, ég vil aukin meðferðarúrræði, ég vil skapa lögleg störf, ég vil losna við hörku undirheimanna og ég vil að fullorðið fólk hafi sinn sjálfsákvörðunarrétt. Það má ná framförum á öllum þessum sviðum með því að lögleiða sum eða öll þau fíkniefni sem í dag eru ólögleg. Fyrir sumum er það augljóst en fyrir öðrum hljómar það eins og þvættingur, þá í síðarnefnda hópnum hvet ég sérstaklega til að lesa áfram með gagnrýnum hug. Skattlagning fíkniefna Í hvert sinn sem keypt er vínglas á veitingarhúsi eða sígarettupakki er seldur úti í sjoppu hagnast ríkið. Ástæðan er einföld, sala á áfengi og sígarettum er lögleg að uppfylltum vissum skilyrðum og því fær ríkið virðisaukaskatt af sölunni auk ýmissa annarra gjalda og mögulega skatt af hagnaði þess sem selur ef reksturinn gengur vel. Þetta er hinsvegar ekki raunin þegar keypt eru ólögleg fíkniefni. Ríkið fær ekkert úr þeim viðskiptum. Og þau viðskipti eru umtalsverð en samkvæmt Ríkislögreglustjóra er ólögleg starfsemi (fíkniefnaviðskipti og mannsal) áætluð um tíu milljarðar á ári á Íslandi. Mér þykir það mikið óráð að leyfa þessum fíkniefnamarkaði að vera óskattlögðum. Salan er að eiga sér stað alveg óháð því hvað fólki finnst um það (meira um það neðar), svo er þá ekki lágmark að ríkið fái skatttekjur eins og af allri annarri seldri vöru og þjónustu sem má þá nota til að stemma stigu við neikvæðum áhrifum fíknaefnaneyslu og að draga úr neyslunni? Í dag er það þannig að öll spítala- og meðferðarúrræði, allt eftirlit lögreglu með innflutningi, vörslu og dreifingu fíkniefna, öll fangelsisvist og annar kostnaður ríkisins sem til er komin vegna fíkniefnaneyslu eða vegna þess að efnin eru ólögleg er greitt fyrir með sköttum sem eru innheimtir af annarri vinnu/sölu en af fíkniefnum. Þannig ekki bara verðum við af skatttekjum af sölu fíkniefnanna heldur tökum við part af annarri skattheimtu til að greiða fyrir þessa hluti. Ef fíkniefni, ákveðin hluti eða öll, væru gerð lögleg myndi ríkið fá þaðan miklar tekjur enda er marg milljarða sala á efnunum á hverju ári. Því til viðbótar væri hægt að lækka útgjöld ríkisins þar sem minni þörf væri á fíkniefnalögreglu og rekstri fangelsa, en einnig má nefna að samfélagið sjálft verður vitanlega af tekjum þeirra sem gætu verið að stunda vinnu en dúsa á bak við lás og slá í staðinn. Skatttekjurnar mætti síðan nota til þess að auka forvarnarstarf, meðferðarúrræði, sálfræðiþjónustu, læknisþjónustu og ýmislegt fleira sem sár þörf er á. Dauðans alvara fíkniefna Þau sem vilja hafa og halda fíkniefnum ólöglegum gera það flest eflaust af góðu, mörg hugsandi að með því að hafa efnin ólögleg sé hægt að minnka framboðið á þeim, halda þeim frá þeim sem myndu annars lenda í vítahring neyslu. Hugsunin er góð en ef marka má þróun seinustu áratuga er hún því miður óskhyggja. Neysla á hinum ýmsu fíkniefnum hefur stöðugt aukist þrátt fyrir harða bannstefnu yfirvalda í flestum löndum og úr hefur orðið mikið fíkniefnastríð með stjarnfræðilegum kostnaði og mannfalli sem mælist í hundruðum þúsunda, auk allra þeirra sem láta lífið við neyslu fíkniefnanna. Fíkniefnastríðið er ekki bara erlent fyrirbæri og Íslandi ótengt. Sala á ólöglegum vörum kallar á aðra svarta starfsemi, svo sem handrukkanir þar sem ómögulegt er fyrir seljendur að leita réttar síns frammi fyrir dómstólum eða með innheimtubréfi frá Mótus eða öðrum löglegum leiðum. Sala á fíkniefnum á Íslandi er heldur ekki öll sprottin frá sjálfbærri íslenskri framleiðslu. Salan kallar á samstarf við erlenda aðila, réttar sagt erlend glæpasamtök. Eftirspurn okkar eftir fíkniefnum knýr þannig áfram þau blóðugu átök sem eiga sér stað í fíkniefnastríðinu erlendis svo lengi sem við kjósum að hafa þessi efni ólögleg. Einföld leið til þess að hugsa þetta er að velta fyrir sér hvers vegna klassískar mafíósa myndir gerast allar á fyrrihluta tuttugustu aldarinnar? Svarið er einfalt. Á þeim tíma var ólöglegt að selja áfengi í Bandaríkjunum. Allt smygl, ólögleg landaframleiðsla og jakkafataklæddu mafíósarnir með sitt ofbeldi urðu að finna sér eitthvað annað að gera þegar áfengið var gert löglegt. Og þrátt fyrir einhverskonar skynjað mikilvægi þess að hafa áfengi ólöglegt á sínum tíma virðist samfélagið ekki hafa farið á hliðina við lögleiðinguna. Þvert á móti er það nú stærðarinnar iðnaður og áfengi selt undir eftirliti til fullorðinna einstaklinga sem geta bæði neytt áfengis, leitað meðferðar eða hvað sem er án nokkurra áhyggna um að það muni koma í bakið á þeim, þau lent í fangelsi, sætt sektum eða misst af atvinnutækifærum. Nýlegra dæmi er svo að nokkur fylki í Bandaríkjunum hafa á undanförnum árum lögleitt sölu á kannabisi án þess að allt fari úr böndunum, það er raunar kominn þangað stærðarinnar iðnaður. En dauðsföll af völdum fíkniefna eru ekki bara í fíkniefnastríðinu sjálfu heldur láta margir lífið af neyslu fíkniefna, til að mynda létu að minnsta kosti 29 einstaklingar á Íslandi lífið vegna ofskömmtunar á seinasta ári. Öll viljum við að þessi tala fari niður í núll, enginn á að þurfa láta lífið með þessum hætti. Það hefur gefist vel í baráttunni við reykingar að beita öflugum forvörnum. Frá árinu 1989 til dagsins í dag hefur hlutfall Íslendinga sem reykja lækkað úr um 33% niður í 8,5%. Það var þó ekki ráðist í að gera sígarettur ólöglegar, við treystum heldur á forvarnir og sjáum að það skilar góðum árangri. Lögleiðing á fíkniefnum myndi getað skilað inn skatttekjum til þess að fjármagna öflugar forvarnir. Annar mjög mikilvægur þáttur sem að lögleiðing slíkra efna myndi skila væri stöðluð og eftirlitsskyld framleiðsla á efnunum. Í dag lúta fíkniefni engum gæða- eða hreinlætisstöðlum. Þau eru plöntur ræktaðar í ýmsum gróðurhúsum eða hitabeltislöndum, lyfjaframleiðsla sem fer fram í Kitchenaid hrærivél uppi á eldhúsborði í Vesturbænum þar sem verið er að blanda sem efnum sem pressa á í pillur, íblöndunarefni sem ekki eru tilgreind og geta verið allt frá öðrum sterkari fíkniefnum, mjólkursykri og yfir í þvottaduft. Áfengi fer hinsvegar í gegnum staðlað framleiðsluferli í höndum fagfólks þar sem gerðar eru ríkar kröfur. Lyfjafyrirtæki hafa einnig mjög ströng framleiðsluferli, hver einasta Panodil tafla inniheldur mjög nákvæman skammt af virka efni töflunnar. Það gera töflur af MDMA, E pillum og fleira hinsvegar ekki, því þær eru framleiddar uppi á eldhúsborði í Vesturbænum en ekki hjá Actavis. Það er ómögulegt að segja hvort tvær eins útlítandi fíkniefnatöflur innihalda einu sinni sama fíkniefni, hvað þá sama styrkleika. Svo spurningin er því: Hvort viljum við að þau sem ákveða að taka inn fíkniefni viti upp á hár hvað þau eru að innbyrða og geti fengið leiðbeiningar frá lyfsala eða að þau taki lyf sem kunna eða kunna ekki að vera lyfin sem þau ætluðu að taka inn? Fáir ætla sér að taka of stórann skammt af fíkniefnum, en það er enginn vafi um það að áhættan af því að taka óvart of stórann skammt eykst gríðarlega þegar þú veist ekkert um styrkleika efnisins sem þú ert að taka inn eða telur þig vera taka vægari skammt en er í raun í töflunni. Sjálfsákvörðunarréttur, fíknivandi og samfélagið Á Íslandi búum við við umtalsvert persónulegt frelsi. Partur af því er að fullorðnu fólki er gefið fullt frelsi til þess að drekka sig í hel, borða sætindi í slíku magni að við verðum akfeit og það stefni lífi þess í hættu sem og að reykja eins og strompar. En ef þú kýst að reykja jónu heima hjá þér á föstudagskvöldi er þér hollast að segja engum frá, við hin í samfélaginu líðum það nefnilega ekki án sekta eða refsinga. Þetta þykir mér ansi öfugsnúið og vil breyta. Ég vil sjálfur hafa frelsi til þess að gera það sem mig langar til svo lengi sem það skaðar ekki aðra og ég vil að aðrir njóti sama frelsis, jafnvel þó að þeir vilji gera hluti sem ég hef ekki áhuga á að gera. Ég er einnig þeirrar skoðunar að vel upplýst fullorðið fólk sé hæft til að taka eigin ákvarðanir, það sem stoppar mig frá því að nota fíkniefni er ekki það að þau séu ólögleg og ég held að það sé heldur ekki það sem stoppi aðra. Að minnsta kosti sýna tölurnar svart á hvítu að þeir sem vilja nota fíkniefni gera það alveg óháð því að þau séu ólögleg, til að mynda hefur um helmingur fólks á aldrinum 18-29 ára á Íslandi neytt fíknaefna og framboðið fer ekkert nema vaxandi og aðgengið verður auðveldara. En til eru þeir sem eiga við fíknivanda að stríða. Þá er freistandi að reyna loka á allt aðgengi þeirra að efnunum með boðum og bönnum og þannig bjarga þeim. En allt bendir til þess að það virki ekki. Allt það sem ég veit um fíknivanda með fíkniefni í gegnum kunningja, ástvini og það sem ég hef lesið bendir til þess að fíkniefnin sjálf séu ekki það sem skapi vandann. Fíkniefni virðast þverrt á móti vera notuð sem svar við öðrum vanda sem kann að vera í lífi fólks, svo sem áföllum, öðrum sjúkdómum, félagsaðstæðum o.fl. Svo ef að hugsunin er að aðstoða fólk í slíkum aðstæðum þá er nær að auka meðferðarúrræði, hjálpa fólki að fá rétta greiningu á sínum vanda og vinna úr honum með sálfræðingum, læknum eða öðrum eftir atvikum. Það gerir engum greiða að stimpla þá sem eru að reyna finna lausn á sínum vandamálum sem glæpamenn, sekta þá, fangelsa og stýra á verri braut. Lokaorð Í mínum huga er nokkuð ljóst að með því að hefja lögleiðingu á fíkniefnum (það er svo sér umræða hvaða efni það eigi nákvæmlega að vera og hvernig salan fer fram) mun ríkið fá tekjur og núverandi gjöld þess lækka. Svört starfsemi mun minnka til muna og lögleg störf munu skapast í þeirra stað. Ofbeldi í undirheimunum mun minnka. Velferð þeirra sem neyta fíkniefna mun aukast og þeim mun bjóðast betri og aðgengilegri úrræði. Hugað er betur að heilsu þeirra með ströngu framleiðsluferli og þeir sæta ekki refsingum sem gera lítið annað en að smána og leiða fólk til verri vegar. Það er löngu orðið tímabært að við horfumst í augu við raunveruleikann. Fíkniefnastríðið tapaðist fyrir mörgum árum, nú er tími til kominn að hætta að valda óþarfa vanlíðan í nafni þess að vera gera fólki gott með því að stinga höfðinu í sandinn. Ég átta mig á því að það er ekki gefið að fólk skipti auðveldlega um skoðun á málefnum eins og þessu. En það er hinsvegar ekkert að því að vilja skipta úr einni aðferð sem var ætlað að gera fólki gott yfir í nýja öflugri aðferð við að ná sama markmiði þegar manni berast nýjar upplýsingar og sjónarmið. Höfundur er viðskiptafræðingur og doktorsnemi í hagfræði.
Skoðun Mikilvægi samgöngusáttmála fyrir Vestfirði Sigríður Ólöf Kristjánsdóttir,Unnar Hermannsson,Halldór Halldórsson skrifar
Skoðun Er aukin fræðsla um kólesteról og mettaða fitu virkilega upplýsingaóreiða? Sigurður Örn Ragnarsson skrifar
Skoðun Tímalína hörmulegra limlestinga og kvalafulls dauðastríðs háþróaðrar lífveru Ole Anton Bieltvedt skrifar
Skoðun „Stórfelldir og siðlausir fjármagnsflutningar“ - Áskorun á Ole Anton Bieltvedt Hjalti Þórisson skrifar
Skoðun Tjáningarfrelsið, ábyrgð og Snorri Másson Bjarndís Helga Tómasdóttir ,Kári Garðarsson skrifar