TMZ hafði eftir talsmanni Roberts á sunnudag að hún hefði látist fyrr um daginn á sjúkrahúsi í Los Angeles. Í gær var hins vegar haft eftir sama talsmanni að um misskilning væri að ræða; Roberts væri enn á lífi. Nú hefur TMZ eftir Lance O‘Brien, unnusta Roberts, að hún hafi andast á spítalanum í gærkvöldi.
TMZ rekur misskilninginn í frétt sinni um málið í dag. Þar segir að O‘Brien hafi heimsótt Roberts á sjúkrahúsið á sunnudag og talið hana látna. Hann hafi yfirgefið spítalann án þess að ræða við starfsfólk og greint talsmanninum frá andláti Roberts, sem staðfesti það við TMZ. Í gær hefði O‘Brien hins vegar verið tilkynnt símleiðis að Roberts væri alls ekki látin.
Roberts var þekktust fyrir hlutverk sín í Bond-myndinni A View to a Kill og sjónvarpsþáttunum That 70‘s Show.
Í A View to a Kill lék hún Bond-stúlkuna Stacey Sutton en Roger Moore fór með hlutverk breska njósnarans. Í That 70‘s Show lék Roberts síðan Midge, móður Donnu Pinciotti, sem var ein aðalpersóna þáttanna.