Innlent

Þremur bifhjólum stolið í Vesturbænum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það var tiltölulega rólegt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt ef marka má dagbók hennar.
Það var tiltölulega rólegt hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt ef marka má dagbók hennar. Vísir/Vilhelm

Laust fyrir klukkan hálfellefu í gærkvöldi barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að þremur bifhjólum hefði verið stolið í Vesturbæ Reykjavíkur, allt frá sama heimilinu.

Að því er segir í dagbók lögreglu heyrði eigandi hjólanna þegar þeim var ekið í burtu frá húsi hans. Um var að ræða eitt svart og grænt barnahjól, eitt gult Suzuki-hjól og eitt rautt og hvítt hjól frá GasGas.

Um hálftíma áður hafði ofurölvi maður verið handtekinn í miðbænum. Ítrekað var búið að tilkynna manninn til lögreglu þar sem hann hafði verið til vandræða á veitingahúsum og víðar. Var hann vistaður í fangageymslu.

Upp úr klukkan átta í gærkvöldi var síðan tilkynnt um umferðaróhapp í Kópavogi. Bíl hafði verið ekið á vegrið og síðan á brott.

Lögreglan hafði afskipti af ökumanninum skömmu síðar þar sem hann var handtekinn grunaður um ölvun við akstur og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Var hann vistaður í fangageymslu. Bíllinn var mikið tjónaður eftir áreksturinn en ekki höfðu orðið slys á fólki.

Þá var tilkynnt um eignaspjöll skömmu eftir klukkan tíu í gærkvöldi á leikskóla í Grafarvogi þar sem rúða hafði brotnað eftir flugeld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×