Haukur greinir frá þessari miður skemmtilegu lífsreynslu á Facebook í dag en í samtali við Vísi segist hann ekki hafa minnsta grun um hver kunni að hafa verið að verki. „Ekki nokkurn grun. Hér er sko ekki nein óvinátta við einn eða neinn,“ segir Haukur.
„Við vöknuðum hjónin við sprengingu um hálf fjögur leytið og ég var nú reyndar ekki með heyrnartækin en það var frúin, hún heyrði glerbrot hrynja. Við héldum að það hefði bara mynd dottið af vegg eða eitthvað svoleiðis en svo þegar ég fór fram þá var stórefnis gat á rúðunni, glerbrot um öll gólf og leifar af nokkrum smásteinum á gólfinu líka,“ útskýrir Haukur.

„Það er engu líkara en að þeir hafi hent stóru grjóti sem hefur síðan brotnað þegar það kom inn,“ segir Haukur. Þau hringdu strax á lögregluna sem kom í hvelli og kallaði til smið sem kom og lokaði glugganum með viðarplötu.
„Það hefur tekið langan tíma að ryksuga og sópa það sem var á gólfinu,“ segir Haukur en glerbrot úr brotinni rúðunni dreifðust út um allt gólf líkt og sjá má að meðfylgjandi myndum. Haukur segir ljóst að grjótinu hafi verið kastað af miklum krafti.
„Ég er alveg hissa á því hvernig hefur verið hægt að gera þetta í raun og veru. Því við erum á annarri hæð og það helvíti mikið afl til að gera þetta. Þetta er enginn krakkaskratti sem gerir þetta,“ segir Haukur sem ber sig nokkuð vel þrátt fyrir þessa leiðinlegu lífsreynslu.
