Innlent

Tveir til viðbótar látnir af Covid-19

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Landspítali háskólasjúkrahús Fossvogi
Landspítali háskólasjúkrahús Fossvogi Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Á síðasta sólarhring hafa tveir sjúklingar látist á Landspítala vegna Covid-19. Þetta kemur fram á vef Landspítalans

Alls hafa nú fjórir látist hér á landi af völdum Covid-19 sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. Fyrst lést ástralskur ferðamaður á Húsavík þann 17. mars og svo rúmlega sjötug kona viku síðar á gjörgæslu á Landspítalanum.

Annar þeirra sem lést á síðasta sólarhring er eiginmaður konunnar sem lést í síðustu viku. Hann var 75 ára gamall og hafði ekki glímt við neina sjúkdóma. Var hann færður í öndunarvél þann 26. mars eftir að ástand hans hafði hríðversnað á stuttum tíma.

Á upplýsingafundi almannavarna í gær upplýsti Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalanas, að níu manns væru í öndunarvél á gjörgæsludeild spítalans. Enginn hefði verið tekinn af öndunarvél.

Klukkan tvö verður, líkt og síðustu daga, haldinn upplýsingafundur almannavarna, landlæknis og sóttvarnalæknis þar sem farið verður yfir stöðu þeirra mála sem tengjast faraldri kórónuveirunnar og aðgerðum til þess að sporna við útbreiðslu.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma D. Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, munu fara yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, verður einnig á fundinum.

Fundinn má sjá í beinni útsendingu hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×