Vöruverð í matvöruverslunum landsins hefur í mörgum tilfellum hækkað talsvert síðan í febrúar samkvæmt nýrri úttekt ASÍ. Þó ber að geta að mörg dæmi eru um að vörur hafi einnig lækkað í verði á tímabilinu.
Samkvæmt niðurstöðum verðkönnunar verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var dagana 18. febrúar og 21. apríl í Bónus, Krónunni, Hagkaup, Nettó, Fjarðarkaup, Iceland, Kjörbúðinni, Heimkaup.is og Netto.is, sést að mestar hækkanir eru í verði á ávöxtum og grænmeti. Verð hefur til að mynda lækkað á mjólkur- og hreinlætisvörum.
Samkvæmt könnuninni eru hækkanir í flestum verslunum en oftast í Krónunni, Bónus, Fjarðarkaup og Hagkaup. Mestu verðlækkanirnar er hins vegar að finna í verslunum Iceland en þar lækkaði verð í 85% tilfella.
Í verslunum fjórum þar sem verð hækkaði oftast var verð oftast hækkað um 5%. Athygli vekur að verð lækkar mikið í öllum vöruflokkum í Iceland milli mælinga og er algengt að verð lækki um um 15-20% og í einhverjum tilfellum enn meira. Borin voru saman verð á 80 vörum í könnun ASÍ.