Lífið

Læknaður af fleiri en einni veiki eftir einangrun

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Kjartan Almar Kárason hafði áhyggjur af því hvaða áhrif einangrun á hótelherbergi í tvær vikur myndi hafa á þunglyndi hans og kvíða.
Kjartan Almar Kárason hafði áhyggjur af því hvaða áhrif einangrun á hótelherbergi í tvær vikur myndi hafa á þunglyndi hans og kvíða. Mynd/Þórdís Erla Ágústsdóttir

Kjartan Almar Kárason þakkar Covid fyrir að hafa gefið sér tækifæri til að kynnast sjálfum sér og róast í tilvistarkreppunni. Hann segist nú laus við meðvitundarleysi í daglegu lífi eftir að hafa eitt tveimur vikum aleinn í einangrun á hótelherbergi með eigin hugsunum. Kjartan Almar dvaldi tvær vikur á sóttvarnarhúsinu sem opnað var á Fosshótel Lind við Rauðarárstíg vegna kórónuveirunnar og skrifaði um það pistil sem birtist hér á Vísi.

„Þetta eru skrítnir og óneitanlega hrikalegir tímar sem hafa þó haft margt gott í skauti sér, allavega fyrir mig persónulega. undanfarnar tvær vikur hef ég haft meiri tíma til að kynnast sjálfum mér og líta innávið en ég hef gert alla mína 25 ára ævi. í tilefni af kvartaldarafmæli mínu fæ ég að endurfæðast inn í gjörólíkan heim sem nýr maður, með nýja lífssýn.“

Átti um sárt að binda

Kjartan Almar hefur verið einkennalaus og heilsuhraustur á þessum tíma en gat ekki sinnt vinnu, erindagjörðum, þrifum og eldamennsku. Hann er barnlaus og nýlega einstæður svo þessar tvær vikur þurfti hann aðeins að sinna sjálfum sér, sem reyndist bæði fræðandi og dýrmæt en líka erfið og ógnvænleg reynsla.

„Mínir dagar í vist hér hafa verið mikil forréttindi sem ekki allir Covid-19 smitaðir hafa notið góðs af og ég finn fyrir miklu þakklæti í garð allra sem hafa veitt mér aðstoð. Því þó að heilsufarslegt ástand hafi ekki verið af alvarlegum toga hafið þið hjálpað manni sem átti um sárt að binda á hátt sem hvorki ég né þið sáuð fyrir.“

Hann hefur í mörg ár verið kvíðasjúklingur og óttaðist hvaða áhrif einangrun í litlu herbergi í allan þennan tíma myndi hafa á geðheilsuna. Kjartan Almar sá fyrir sér kvíðakast og geðbilun en raunin varð allt önnur.

„Ég var meðvitaðri um líðan mína og passaði að fara betur með mig en ég hefði annars gert, með hjálp hugleiðslu, öndunaræfinga, hreyfingu og holls mataræðis auk áfengis- og kaffibindindis. Ég sé nú áhrif hvers og eins þessara áhrifavalda í skýrara ljósi og get verið meðvitaðri og varkárari gagnvart þeim í mínu komandi daglega lífi.“

Félagslegur kvilli

Kjartan Almar segir að fyrstu dagarnir hafi verið erfiðir því venjulega þarf hann sífellt að vera á flakki til að finna verkefni til að framfleyta sér og ná lengra, seðja sjálfið.

„Þessi gulrót sem ég og margir samlandar mínir eltumst ótrauðir við hefur smám saman leitt okkur af vegi þess sem er mikilvægt í lífinu og fjær hamingjunni. Það hefur orðið mér ljóst að við erum í okkar daglega lífi, á mismeðvitaðan hátt, aðeins að dreifa huganum og seinka því að horfast í augu við okkur sjálf, hver við erum, hvað við viljum og að lokum okkar óhjákvæmilega dauðadag. Þetta meðvitundarleysi er félagslegur kvilli sem hefur lagst á vestrænt samfélag og fyllt okkur kvíða og óhamingju, löngu áður en þessi Covid-19 veira herjaði á. Að hafa horfst í augu við þennan kvilla hefur verið græðandi. Því get ég sagt að eftir þessa einangrun verð ég því læknaður af fleiri en einni veiki - einni tímabundinni og einni langvarandi.“

Hann er því þakklátur fyrir tækifærið til að kynnast sjálfum sér og róast í tilvistarkreppunni. Þakkar hann Covid, Fosshótel, Rauða krossinum og Landspítalanum.

„Ég vona að aðrir fái tækifæri til að komast á þennan andlega stað án þess að þurfa að ferðast yfir hnöttinn eða að setja sig í þá hættu að láta smitast af einhverri árans veiru eins og ég. Hvort sem slíkt tækifæri gefst eða ei, trúi ég að við munum öll komast í gegnum þetta tímabil sem betri, hamingjusamari og meðvitaðri manneskjur.“

Hægt er að lesa pistil Kjartans Almars í heild sinni hér á Vísi.


Tengdar fréttir

Þakkir fyrir umönnun á Fosshótel Lind

Nú er liðið að lokum á áhugaverðri lífsreynslu í lífi mínu. Eftir að hafa verið greindur með Covid-19 veiruna hef ég síðastliðnar tvær vikur verið einangraður innan veggja þriggja stjörnu herbergis á FossHótel Lind við Rauðárstíg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×