Innlent

Telur fórnarkostnað hjarðónæmis of háan

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þórólfur segir fórnarkostnað hjarðónæmis of mikinn.
Þórólfur segir fórnarkostnað hjarðónæmis of mikinn. Ljósmynd/Lögreglan

„Við vitum hvað hjarðónæmi þýðir, við vitum hvað þarf að vera mikið ónæmi í samfélaginu til að stoppa þessa veiru af og ég held að það yrði gríðarlegur fórnarkostnaður ef við ætluðum að ná því tiltölulega hratt og það myndi ekki bara vera fórnarkostnaður hvað varðar þessa sýkingu. Það myndi vera fórnarkostnaður á aðra sjúklingahópa, heilbrigðiskerfið, allt saman,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Kollegi Þórólfs í Svíþjóð lýsti því nýlega yfir að vonast yrði til þess að hjarðónæmi myndaðist þar í landi gegn kórónuveirunni sem veldur Covid-19 sjúkdómnum fyrr en síðar. Hann vonaðist til að í byrjun júní myndu mælingar sýna að 50 prósent þjóðarinnar hefðu fengið sjúkdóminn og þar með hjarðónæmi myndast.

Þórólfur segist ekki sammála þessu. Mikils sé til að vinna að fara hægt í tilslakanir og sjá hvort einhverjar nýjungar komi upp sem geti hjálpað okkur að eiga við veiruna. „Kannski á þessi veira eftir að veiklast eitthvað þegar fram í sækir. Veirur gera það mjög oft en hvort að þessi veira geri það eða hvort hún verði eitthvað verri eða skæðari, það er bara mjög erfitt að segja til um.“

Þá segir hann einnig og fljótt í árina gripið að segja að faraldurinn sé búinn. Svo lengi sem verið sé að greina tilfelli hér á landi sé hann ekki búinn og hann geti alltaf blossað upp aftur eins og dæmi séu um í öðrum löndum, þar á meðal Suður-Kóreu, Singapúr og Kína.

„Þess vegna þurfum við að vera á tánum, fara hægt, fara varlega og fylgjast mjög vel með því sem er að gerast og bregðast við. Annað hvort þurfum við að bakka, tvö skref, eitt skref. Við getum ekki gert annað held ég.“

Þá segir hann ekki ljóst hve stór hluti þeirra sem greinst hafa með veiruna eigi á hættu á að smitast af henni aftur. Upp hafa komið tilfelli annars staðar þar sem fólk sem veiktist af veirunni og hafði náð bata greindist með hana á ný. Óvíst sé hvort um aðra veiru sé að ræða, hvernig mótefni þetta fólk myndaði við henni og svo framvegis. „Við vitum að allar sýkingar eru þannig að það er ekki hundrað prósent að fólkið sem sýkist myndar ekki verndandi mótefni eða mótstöðu en það er kannski 98-99 prósent þannig að það er greinilega mjög mikill meirihluti sem myndar mótefni gegn veirunni við sýkingu.“

„Það getur vel verið að það sé einhver undirhópur þarna sem á eftir að skoða betur. Ég tel að þetta sé algjör undantekning og við eigum bara eftir að fá betri upplýsingar um hvað þetta snýst í raun og veru,“ sagði Þórólfur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×