Innlent

Heitavatnslaust í vesturhluta Reykjavíkur

Samúel Karl Ólason skrifar
Bilunin tengist stórum leka sem varð í desember.
Bilunin tengist stórum leka sem varð í desember. Vísir/Vilhelm

Uppfært 23:00: Í ljós hefur komið að skemmdirnar eru umfangsmeiri en talið var í fyrstu. Því sé ekki hægt að veita heitu vatni til íbúa með öðrum leiðum og verður heitavatnslaust þar til í fyrramálið, það er 26. mars.

Heitavatnslaust er í stórum hluta Reykjavíkur, eða vesturhlutanum. Meðal annars á það við miðbæinn, Hlíðarnar og Vesturbæinn og er það vegna bilunar. Við viðgerð á stofnæð hitaveitunnar við Valsheimiliið fór lögnin í sundur.

Starfsmenn Veitna vinna að viðgerð og að því að setja vatn aftur á kerfið með öðrum leiðum.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, segir að vonast sé til að viðgerðum verði lokið upp úr miðnætti.

Í tilkynningu frá Veitum er fólki bent á að hafa skrúfað fyrir alla heitavatnskrana til að draga úr hættu á slysi eða tjóni þegar vatnið kemst á að nýju. Í kuldatíð er ráðlegt að hafa glugga lokaða og útidyr ekki opnar lengur en þörf krefur til að koma í veg fyrir að það kólni.

Bilunin tengist stórum leka sem varð á svipuðum stað í desember. Svo virðist sem að sá leki hafi valdið skemmdum á lögninni og verður hún tekin úr rekstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×