Íslenski boltinn

Ís­lands­meistararnir missa enn einn leik­manninn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lasse Petry hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Val.
Lasse Petry hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Val. Vísir/Bára

Danski miðjumaðurinn Lasse Petry mun ekki leika með Íslandsmeisturum Vals á næstu leiktíð. Hinn 28 ára gamli Dani hefur samið við HB Köge sem leikur í dönsku B-deildinni.

Petry var frábær hjá Val í sumar er liðið varð Íslandsmeistari. Hann myndaði eina sterkustu miðju landsins ásamt Hauki Páli Sigurðssyni og Kristni Frey Sigurðssyni. Alls lék hann 17 af 18 leikjum liðsins.

Petry gekk til liðs við Val í janúar á síðasta ári en átti erfitt uppdráttar sumarið 2019 vegna meiðsla. Hann var hins vegar eins og áður sagði frábær í sumar og einn af betri leikmönnum deildarinnar. 

Alls lék hann 29 leiki fyrir Val í Pepsi Max deild karla og skoraði fimm mörk.

Danski miðjumaðurinn hefur ákveðið að halda heim til Danmerkur en hann samdi við HB Köge sem situr í 7. sæti dönsku B-deildarinnar um þessar mundir. Samningur hans við Val hafði runnið út og því fer hann á frjálsri sölu. Hann hefur einnig leikið fyrir Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni sem og Lyngby í dönsku B-deildinni.

Lasse Petry er sjötti leikmaðurinn sem yfirgefur Íslandsmeistara Vals. 

Aron Bjarnason var á láni frá ungverska félaginu Újpest en gæti komið aftur. Valgeir Lunddal Friðriksson samdi við sænska félagið Häcken í gær. Eiður Aron Sigurbjörnsson samdi við uppeldisfélag sitt ÍBV. Einar Karl Ingvarsson fór í Stjörnuna og þá fór danski framherjinn Kasper Högh aftur til Randers en hann var á láni hjá félaginu.

Íslandsmeistararnir hafa hins vegar fest kaup á þeim Tryggva Hrafni Haraldssyni og Arnóri Smárasyni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×