Innlent

Leituðu að kaja­kræðara en fundu bara hvali

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Talsvert var um hval á leitarsvæðinu og því talið að um missýn hafi verið að ræða.
Talsvert var um hval á leitarsvæðinu og því talið að um missýn hafi verið að ræða. Vísir/Vilhelm

Lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir á Akureyri leituðu í meira en tvær klukkustundir að kajakræðara sem talið var að hefði lent í vandræðum í sjónum milli Akureyrar og Svalbarðsstrandar í dag. Talið er að um missýn hafi verið að ræða, þar sem mikið var um hvali á svæðinu.

Þetta kemur fram á vefnum Akureyri.net. Þar segir að fjöldi leitarmanna hafi verið ræstur út og aðgerðastjórn virkjuð. Félagar í björgunarsveitinni Súlum leituðu mannsins á báti, slökkviliðsmenn og starfsmenn Akureyrarhafnar á hafsögubátum. Þá notaðist lögreglan við dróna sem tóku myndskeið og hitamyndir af leitarsvæðinu.

„Eftir að leit hafði staðið yfir í rúma tvo tíma og ekkert sést nema töluvert af hval að leik eða hangandi upp við yfirborðið, þótti einsýnt hvers kyns var. Hvalur sást bæði á Pollinum og utar, en tilkynnt var að meintur kajakræðari hefði verið í sjónum austur af Slippnum, nálægt Svalbarðsströnd,“ segir á Akureyri.net.

Þá er haft eftir varðstjóra hjá lögreglunni að útkallið hafi verið góð æfing og leitin hafi verið einkar nákvæm. Alls stóðu aðgerðir yfir í um þrjár klukkustundir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×