Líkt og kunnugt er var Bjarni meðal gesta í Ásmundarsal á Þorláksmessukvöld þar sem of margir voru saman komnir og sóttvörnum ábótavant. Bjarni segist hafa stoppað þar við ásamt eiginkonu sinni til að heilsa upp á vinahjón, þau hafi verið þar í um 15 mínútur en á Facebook í gær baðst hann afsökunar vegna málsins. Bjarni hefur að öðru leyti ekki tjáð sig vegna málsins eða svarað fyrirspurnum fjölmiðla.

„Við vantreystum fjármálaráðherra, við treystum honum ekki til að fara með völd. Hvort að hann gerir eitthvað sjálfur eða hvort að við leggjum hana fram, við erum ekki búin að klára það samtal í þingflokknum, Það bara voru hátíðleg jól, en við munum ræða það í framhaldinu hvernig við munum nálgast það,“ sagði Jón Þór í samtali við Rúv.
Uppfært kl. 13:45
Í samtali við Vísi segir Jón Þór að hugmyndin um að leggja fram vantrauststillögu sé ekki langt á veg komin. Ekki sé þó útilokað að brot ráðherra á sóttvarnareglum eigi erindi við stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eða aðrar nefndir þingsins. Það sé hlutverk nefndarinnar og þingsins að hafa eftirlit með því hvort framkvæmdavaldið fari að lögum og reglum.