Erlent

Skipar fyrir um fegurð opin­berra bygginga

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump á tæpan mánuð eftir í embætti forseta Bandaríkjanna. Þann 20. janúar 2021 tekur Joe Biden við embættinu.
Donald Trump á tæpan mánuð eftir í embætti forseta Bandaríkjanna. Þann 20. janúar 2021 tekur Joe Biden við embættinu. Chip Somodevilla/Getty

Donald Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseti, hefur skrifað undir forsetatilskipun sem kveður á um að opinberar byggingar á alríkisstigi, sem byggðar verða í framtíðinni, verði að vera „fallegar.“ Þá verði þær helst að vera byggðar í klassískum rómverskum eða grískum stíl, eða öðrum sambærilegum stíl.

Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu. Í tilskipuninni segir að of margar alríkisbyggingar séu í „brútalískum stíl síðustu aldar,“ og að slíkar byggingar ættu frekar að líkjast alþekktum kennileitum á borð við Hvíta húsið.

Arkítektastofnun Bandaríkjanna hefur sett sig „alfarið á móti“ tilskipuninni, sem gagnrýnendur segja margir að sé ólýðræðisleg. Með tilskipuninni er sett á fót sérstakt ráðgjafaráð, sem ætlað er að veita forsetanum ráðgjöf varðandi byggingu nýrra alríkisbygginga.

„Nýjar alríkisbyggingar eiga, líkt og ástkær kennileiti Ameríku og byggingar, að lyfta upp og fegra almenningsrými, veita mannsandanum innblástur, göfga Bandaríkin, eiga skilið virðingu almennings, og, eftir atvikum, virða byggingararfleið mismunandi svæða,“ segir meðal annars í tilskipuninni.

Tilskipunin var gefin út í gær, en Trump á nú tæpan mánuð eftir í forsetastól, þar sem Joe Biden tekur við embættinu þann 20. janúar næstkomandi, eftir að hafa unnið forsetakosningarnar í nóvember á móti Trump.

Þó að tilskipunin sé gefin út nú, hófst vinna við hana í febrúar, eftir því sem BBC greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×