Íslenski boltinn

Segja að Eiður hætti með FH

Anton Ingi Leifsson skrifar
Eiður Smári á hliðarlínunni í Kaplakrikanum síðasta sumar.
Eiður Smári á hliðarlínunni í Kaplakrikanum síðasta sumar. vísir/hulda

Samkvæmt heimildum vefmiðilsins 433.is mun Eiður Smári Guðjohnsen láta af störfum sem þjálfari FH í Pepsi Max deild karla eftir að hafa verið ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari.

Knattspyrnusamband Íslands sendi frá sér fréttatilkynningu nú áðan þar sem kemur líka fram að Eiður Smári Guðjohnsen muni aðstoða Arnar Þór Viðarsson alveg eins og hann gerði hjá 21 árs landsliðinu.

Eiður var í síðasta mánuði ráðinn þjálfari FH til næstu tveggja ára eftir að hafa tekið við liðinu tímabundið um mitt mót. Honum til aðstoðar var ráðinn FH-ingurinn Davíð Þór Viðarsson og Logi Ólafsson sem tæknilegur ráðgjafi.

433.is greinir hins vegar frá því að Eiður muni láta af störfum sem þjálfari FH og einbeita sér að verkefnunum með landsliðinu. Því þurfi FH að finna nýjan aðalþjálfara í hans stað.

FH gæti því fært Loga til í starfi og hann tekið við liðinu með Davíð sér við hlið en einnig ku Ólafur Jóhannesson, margfaldur Íslandsmeistari með FH og Val, vera inni í myndinni.

KSÍ hefur boðað til blaðamannafundar klukkan 14.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×