Innlent

Tekinn með 26 kíló af kannabis

Nadine Guðrún Yaghi skrifar
Karlmaður á þrítugsaldri var tekinn með 26 kíló af kannabis.
Karlmaður á þrítugsaldri var tekinn með 26 kíló af kannabis. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú innflutning á 26 kílóum af kannabis en þetta er langmesta magn sem náðst hefur í einu. Þá rannsakar embættið kókaíninnflutning sem talinn er hluti af skipulagðri glæpastarfsemi.

Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli stöðvaði tvo karlmenn á sextugsaldri sem komu til landsins þann 23. nóvember frá Kaupmannahöfn en þeir reyndust vera með kókaín í fórum sínum.

„Bæði innan klæða og innvortis reyndust þeir vera með tæpt kíló af kókaíni á sér samtals,“ segir Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Rannsókn málsins sé á lokametrunum.

„En í tengslum við þessa rannsókn var þrennt handtekið hér á landi og farið í húsleit á tveimur stöðum Við höfum grun um að þetta sé skipulagt og hafi átt sér stað áður,“ segir Jón Halldór. 

Jón Halldór Sigurðsson, lögreglufulltrúi, segir að rannsókn málanna sé lokið. Vísir/Friðrik

Þá hafi orðið gríðarleg aukning á innflutningi kannabis á haustmánuðum. Í ágúst var kona á þrítugsaldri frá Mexíkó tekin með fimmtán kíló af kannabis í ferðatösku sem hún kom með til landsins.

„Eitthvað sem við höfum ekki séð áður í haldlagningu í flugstöðinni en svo núna í október var lagt hald á 26 kíló,“ segir Jón Halldór. 

Karlmaður á þrítugsaldri er grunaður um að hafa flutt efnið til landsins frá Kanada í tveimur ferðatöskum. Var hann látinn sæta gæsluvarðhaldi.

„Þetta mundi vera mesta haldlagða magnið af kannabisefnum í einu og það í farangri. Þetta er eitthvað sem lögreglan á Íslandi hefur talið að sé framleitt hér á Íslandi þannig þetta er nýtt í okkar gagnagrunni að það sé verið að flytja þetta inn með þessum hætti,“ segir Jón Halldór og bætir við að rannsókn málanna sé lokið og þau hafi verið send til Héraðssaksóknara. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×