Pfizer gerir þó ráð fyrir því að dreifa meira en milljarði skammta árið 2021.
Pfizer og þýska lyfjafyrirtækið BioNTech, sem framleiðir bóluefnið með Pfizer, vonuðust til þess að geta dreift 100 milljón bóluefnaskömmtum fyrir árslok en miðað við nýjustu vendingar munu það aðeins verða 50 milljón skammtar. Þetta kemur fram í frétt Wall Street Journal.
Bresk heilbrigðisyfirvöld ákváðu í gær að heimila notkun bóluefnisins frá Pfizer og BioNTech og verður það þar með fyrsta ríkið á Vesturlöndum til að hefja dreifingu efnisins. Bretland hefur pantað 40 milljón skammta af bóluefninu frá Pfizer og BioNTech, sem mun nýtast í að bólusetja 20 milljón manns, en tvo skammta þarf til bólusetningar.
Yfirvöld á Bretlandi lýstu því yfir í nóvembermánuði að þau stefndu á að fá allt að 10 milljón bóluefnaskammta á þessu ári, en nú er talið að fjórar eða fimm milljónir skammta berist til Bretlands fyrir árslok.
Hófu aukna framleiðslu hráefna fyrr en vanalega
Bóluefni Pfizer og BioNTech er einnig í skoðun hjá lyfjaeftirliti Bandaríkjanna, og gert er ráð fyrir því að leyfi fyrir notkun efnisins verði gefið út um miðjan mánuðinn og að dreifing hefjist fyrir árslok. Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna er einnig með bóluefni frá Cambridge háskóla og Moderna í skoðun og gæti dreifing á því hafist fyrir jól.
Pfizer kaupir hráefni í bóluefnið frá fyrirtækjum í Bandaríkjunum og Evrópu en erfitt hefur reynst að auka framleiðslu á efnunum undanfarinn mánuð. Aukin framleiðsla hráefnanna hófst áður en leyfi fékkst fyrir notkun bóluefnisins, en undir venjulegum kringumstæðum myndu lyfjafyrirtæki bíða með það þar til efnið hefur fengið leyfi.
Bandaríkjastjórn hefur pantað 100 milljón skammta af bóluefni Pfizer, en hefur svigrúm til að panta 500 milljón skammta til viðbótar. Ríkisstjórn Íslands hefur einnig skrifað undir samning við Pfizer um kaup á 85 þúsund skömmtum af efninu. Þá hefur Evrópusambandið pantað 200 milljón skammta af bóluefninu með svigrúm fyrir aukalegum 100 milljón skömmtum. Japan hefur pantað 120 milljón bóluefnaskammta og ríki í Suður-Ameríku og í Kyrrahafinu hafa einnig lagt inn stórar pantanir fyrir efninu.