Innlent

Eldingum slegið niður í öflugum éljum í dag

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nokkrar eldingar hafa mælst í óveðrinu í dag. Eldingarnar á myndinni eru þó útlendar og tengjast fréttinni ekki beint.
Nokkrar eldingar hafa mælst í óveðrinu í dag. Eldingarnar á myndinni eru þó útlendar og tengjast fréttinni ekki beint. Vísir/getty

Nokkrar eldingar hafa mælst í óveðrinu sem nú gengur yfir landið en góð skilyrði hafa orðið til fyrir eldinga- og þrumuveðri, að sögn veðurfræðings.

Nokkrar eldingar hafa mælst í óveðrinu sem nú gengur yfir landið en góð skilyrði hafa orðið til fyrir eldinga- og þrumuveður, að sögn veðurfræðings. Íbúar á Suðurnesjum hafa heyrt drunur í þrumum nú síðdegis samhliða því að veður versnar.

Appelsínugular viðvaranir eru nú í gildi á Breiðafirði, Faxaflóa, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra. Áður höfðu viðvaranirnar aðeins verið appelsínugular á Breiðafirði og Faxaflóa. Þar hafa þær þegar tekið gildi en taka ekki gildi á hinum stöðunum fyrr en í kvöld.

Viðvaranirnar fram eftir kvöldi.Skjáskot/veðurstofan

Teitur Arason veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi að þrumur og eldingar geti fylgt öflugum éljum líkt og nú ganga yfir. Hann segir þau á Veðurstofunni hafa fengið tilkynningu um eina eldingu og þrumur í Reykjanesbæ en sú elding hafi þó ekki mælst á mælum. Tvær eldingar hafa mælst í Borgarfirði.

„Í útlöndum þætti þetta mjög ómerkilegt, þar eru oft hundruð eldinga. Eldingin í Keflavík mældist reyndar ekki en þar heyrðist þruma og svo hafa tvær mælst í Borgarfirði, Íslendingum þykir þetta alltaf svolítið merkilegt,“ segir Teitur.

„Þetta er til merkis um hvað þau eru öflug þessi él, þar er mikið uppstreymi sem myndar rafhleðslu sem síðan slær niður.“

Veður hefur verið slæmt á suður- og vesturhluta landsins það sem af er degi en hefur nú tekið að versna síðdegis. Teitur segir að veðrið muni ná hámarki á næstu tveimur tímunum og haldast síðan nokkuð stöðugt fram að miðnætti.

„Þá slakar á en verður hálfleiðinlegt veður og éljagangur áfram á morgun,“ segir Teitur.

Hefur þú náð myndefni af þrumum og eldingum í dag? Sendu okkur póst á ritstjorn@visir.is. Áfram verður fylgst með framgangi veðursins í veðurvaktinni á Vísi í kvöld.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×