Erlent

Til skoðunar að af­létta ferða­tak­mörkunum á Evrópu í Banda­ríkjunum

Kjartan Kjartansson skrifar
Alþjóðaflug hefur dregist saman um 70% í Bandaríkjunum í kórónuveirufaraldrinum. Ríkisstjórnin íhugar að aflétta ferðatakmörkunum á Evrópu til að létta undir með flugfélögum.
Alþjóðaflug hefur dregist saman um 70% í Bandaríkjunum í kórónuveirufaraldrinum. Ríkisstjórnin íhugar að aflétta ferðatakmörkunum á Evrópu til að létta undir með flugfélögum. Vísir/EPA

Bandaríkjastjórn íhugar nú að afnema ferðatakmarkanir á fólk sem hefur dvalið í 28 Evrópulöndum og Brasilíu vegna kórónuveirufaraldursins. Ferðabanninu var komið á um miðjan mars en lýðheilsusérfræðingar stjórnarinnar og alríkisstofnanir eru sagðar styðja að aflétta því.

Reuters-fréttastofan hefur eftir heimildarmönnum sínum innan Bandaríkjastjórnar og bandarískra flugfélaga Donald Trump, fráfarandi forseti, hafi ekki tekið endanlega ákvörðun um hvort að takmörkununum verði aflétt og að ekki sé ljóst hvenær úr því gæti orðið.

Takmarkanirnar hafa þýtt að fólk sem hefur dvalið í Evrópuríkjunum og Brasilíu fjórtán daga fyrir ætlaða heimsókn hafa ekki fengið að koma til Bandaríkjanna. Bandarískir borgarar hafa þó verið undanþegnir reglunum. Ríkisstjórn Trump er sögð telja að takmarkanirnar hafi ekki lengur sérstaka þýðingu þar sem flest önnur ríki heims sæti ekki sömu takmörkunum. Hægt verði að aðstoða nauðstödd flugfélög með því að opna á ferðir frá Evrópu aftur.

Tíðni kórónuveirusmita er enn há víða í Evrópu. Því er ekki sagt öruggt að Trump samþykkti af aflétta takmörkununum. Þá gæti það flækt stöðuna að ólíklegt er að Evrópuríkin leyfðu Bandaríkjunum á móti að koma þangað strax. Nærri því öll Evrópuríki banna flestum Bandaríkjamönnum að koma þangað. Faraldurinn geisar víða stjórnlaust í Bandaríkjunum sem er með flest smit og dauðsföll af öllum ríkjum heims.

Ýmsar undanþágur hafa verið veittar á takmörkununum á ferðalög frá Evrópu. Þannig hefur utanríkisráðuneytið veitt undanþágur í nafni þjóðaröryggis fyrir ferðalög sem tengjast mannúðarstarfi, lýðheilsu og þjóðaröryggismálum. Eins hafa sumir viðskiptamenn, fjárfestar, fræðimenn, námsmenn og fréttamenn fengið undanþágur til að ferðast til Bandaríkjanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×