Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu réðst í nokkuð umfangsmiklar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu í gær. Húsleit var gerð og tveir karlmenn á þrítugsaldri voru handteknir, hvor á sínum staðnum.
Annar aðilinn mun samkvæmt heimildum fréttastofu vera karlmaður, lærður bardagaíþróttamaður, sem birti um liðna helgi myndband af sér ganga í skrokk á öðrum karlmanni.
Að neðan má sjá stutt myndband af aðgerðum lögreglu í nótt.
Sá var handtekinn og yfirheyrður vegna líkamsárásarinnar á sunnudag en í framhaldinu sleppt. Tveimur sólarhringum síðar kviknaði eldur í íbúð mannsins og er sterkur grunur um að kveikt hafi verið í íbúð hans.
Myndband sem sýnir logandi hlut hent inn í íbúð mannsins er gagn í rannsókn lögreglu.
Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fór handtaka meðal annars fram í Vallarási seint í gærkvöldi en óskýr mynd að ofan er frá vettvangi handtökunnar.
Lögreglan hafði afskipti af þremur karlmönnum í fjölbýlishúsi í Fellahverfi síðdegis í gær vegna rannsóknar málsins. Nokkur viðbúnaður var á vettvangi vegna málsins en grunur var um að einn mannanna væri vopnaður. Svo reyndist ekki vera og var enginn handtekinn í þeim aðgerðum.
Uppfært klukkan 10:15
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sent frá sér tilkynningu vegna málsins. Þar kemur fram að karlmennirnir séu á þrítugsaldri og að húsleitir hafi verið framkvæmdar. Von sé á frekari upplýsingum frá lögreglu í framhaldinu, mögulega síðar í dag, þegar rannsókn vindur fram.
Tveir karlar á þrítugsaldri voru handteknir í umdæminu í gærkvöld og nótt og húsleitir framkvæmdar í tengslum við rannsókn Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á bruna, líkamsárás og hótunum.
Mennirnir voru handteknir á sitthvorum staðnum og var nokkur viðbúnaður vegna þessa. Við aðgerðirnar naut Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra.
Lögreglan áformar að senda frá sér frekari upplýsingar um málið þegar rannsókn þess vindur fram, mögulega síðar í dag.