Innlent

Tekinn 22 sinnum af lögreglu vegna sama brots

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Það kennir ýmissa grasa í dagbók lögreglu þennan morguninn.
Það kennir ýmissa grasa í dagbók lögreglu þennan morguninn. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók um kvöldmatarleytið í gær mann í annarlegu ástandi sem handtekinn var á stofnun í hverfi 108 grunaðan um líkamsárás.

Í dagbók lögreglu er manninum gefið að sök að hafa ráðist á starfsfólk stofnunarinnar og gisti hann fangageymslu í nótt. Áverkar starfsfólksins eru sagðir minniháttar.

Um klukkan hálfellefu í gærkvöldi var ölvaður maður handtekinn í Árbænum fyrir að reyna stela hjólbörðum undan bíl.

Vitni komu að manninum þar sem hann var að losa hjólbarða undan bíl og tilkynntu þau málið til lögreglu.

Rétt fyrir klukkan tvö í nótt var bíll stöðvaður í austurborginni og kom þá í ljós að ökumaðurinn, sem er átján ára gamall, hefur aldrei öðlast ökuréttindi.

Eftir að maðurinn gaf ítrekað upp ranga kennitölu tókst lögreglu loks að bera kennsl á hann og kom þá í ljós hann hefur ítrekað verið staðinn að verki við sama brot, það er að segja að aka án réttinda, eða alls 22 sinnum. Lögregla lagði hald á lykla bílsins.

Þá voru nokkrir ökumenn teknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis eða vímuefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×