Færeyjar og Bandaríkin hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu, þá fyrstu þeirra á milli í sögunni, sem mótar ramma að auknu tvíhliða samstarfi landanna. Skjalið undirrituðu Jenis av Rana, utanríkis- og menningarmálaráðherra Færeyja, og Michael J. Murphy, staðgengill aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, við athöfn í Norðurlandahúsinu í Þórshöfn í Færeyjum á fimmtudag.
Meðal viðstaddra var Carla Sands, sendiherra Bandaríkjanna í Danmörku. Hún hafði áður komið á fundi Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, með forystumönnum Færeyja og Grænlands í Kaupmannahöfn í júli síðastliðið sumar. Sá fundur lagði grunninn að undirrituninni núna, sem og nýlegum samningum Bandaríkjanna og Grænlands. Athygli vekur að þessar undirritanir eru án beinnar aðildar stjórnvalda í Kaupmannahöfn, en formlega fer ríkisstjórn Danmerkur með utanríkismál Færeyja og Grænlands.

Íslendingar hafa einnig orðið áþreifanlega varir við aukinn áhuga Bandaríkjamanna á smáþjóðum Norður-Atlantshafsins, sem raungerist brátt með milljarða hernaðarframkvæmdum á Keflavíkurflugvelli. Þá viðraði bandarískur aðmíráll á fundi með íslenskum fréttamönnum í Reykjavík fyrir hálfum mánuði hugmyndir um varanlega viðveru Bandaríkjahers á Keflavíkurflugvelli og nýja flotastoð á Austfjörðum.
„Færeyjar hafa lengi leitast við að þróa sterkari og markvissari samskipti við Bandaríkin. Þessi samstarfsyfirlýsing er því mikið skref fram á við. Það gefur okkur grundvöll til að vinna sameiginlega með Bandaríkjunum að virkara samstarfi á fjölmörgum sviðum, þar á meðal í viðskiptum, rannsóknum og menntun,“ sagði færeyski ráðherrann Jenis av Rana, í tilefni af undirritun samstarfsyfirlýsingarinnar.

„Færeyjar eru hernaðarlega staðsettar þar sem Norður-Atlantshaf mætir norðurslóðum, á svæði þar sem alþjóðlegur áhugi heldur áfram að vaxa. Við leggjum mikla áherslu á að tryggja náin og öflug samskipti við alla nágranna okkar í Norður-Atlantshafi og norðurslóðum.
Þetta þýðir einnig að sterkt samstarf við Bandaríkin skiptir sköpum fyrir Færeyjar. Við deilum sameiginlegum lýðræðislegum gildum með Bandaríkjunum, byggð á réttarríki, málfrelsi og mannréttindum, og Bandaríkin eru lykilvörn öryggis á okkar svæði,“ sagði Jenis av Rana.
Bandaríska sendinefndin notaði tækifærið í Færeyjaheimsókninni til að kynna sér færeyskt þjóðlíf. Nýtt hafrannsóknaskip Færeyinga var skoðað og fyrirtækið Bakkafrost heimsótt, en það er langstærsta fyrirtæki eyjanna og talið það áttunda stærsta á sviði fiskeldis í heiminum.

Þá heimsótti sendiherrann Carla Sands færeyska fjölskyldu. Þar var hún að endurnýja kynni sín af húsmóðurinni á heimilinu, sem hún kynntist í æsku í Pennsylvaníu.
„Þar passaði ég litla stelpu sem giftist Færeyingi og býr núna með yndislegri fjölskyldu sinni í Þórshöfn. Svo yndislegt að ná því,“ tísti Carla Sands, en hún hefur einnig lagt sig fram um persónuleg kynni í samskiptum við Grænlendinga. Þannig bauð hún Kim Kielsen, forsætisráðherra Grænlands, í heimsókn til sín í sendiherrabústaðinn í Kaupmannahöfn.
Bandaríkjamenn hafa ekki farið leynt með markmið sitt að styrkja áhrifamátt sinn á Norður-Atlantshafi og norðurslóðum með því að treysta vinasamstarf við Færeyinga og Grænlendinga. Í grein fyrr á árinu skýrði Carla Sands aukinn áhuga Bandaríkjastjórnar á þessum heimshluta: