Skoðun

Snjöll samskipti

Bryndís Guðmundsdóttir skrifar

Á morgun er símalaus sunnudagur, áskorun Barnaheilla til landsmanna, sem felur í sér að leggja frá sér símann í tólf klukkustundir og njóta samverustunda með fjölskyldunni.

Félagsleg nærvera er okkur öllum nauðsynleg. Á tímum sem þessum eru margir sem líta inn á við og skoða það sem mest skiptir máli – fjölskyldan, vinir, stuðningsnetið og að sjálfsögðu heilsan. Kostir samfélagsmiðla og snjallsíma í samskiptum eru áberandi sem aldrei fyrr og þá má helst ræða möguleikann á að viðhalda tengslum við nákomna þrátt fyrir að sitja hinum megin á landinu. Ömmur og afar skoða daglegt amstur barnabarna, vinir hópast saman í fjarskipta spilaleikjum og nafnaveislur eru haldnar með rafrænu móti.

Ég held að allir taki undir það að þó tæknin sé vissulega góð þá jafnast ekkert á við að hitta okkar nánustu í eigin persónu, vera í sama rýminu, eins mörg og okkur sýnist, skiptast á góðum sögum, hlæja saman og mega knúsast að vild.

Ég gerði meistararannsókn í félagsráðgjöf árið 2017 sem fjallaði um upplifun ungmenna af samskiptum með tilkomu snjallsímans. Niðurstöðurnar voru í takt við ritrýndar erlendar rannsóknir þar sem fram kom að snjallsíminn getur auðveldlega truflað samverustundir. Þetta lýsir sér þannig að síminn er tekinn reglulega upp í miðjum samræðum sem grefur þá undan tilfinningalegum tengslum og nánd milli samræðuaðila. Fólk upplifir minni samkennd, samskiptin skorta dýpt og verða þar af leiðandi ófullnægjandi. Þetta ástand er kallað fjarhuga nærvera (e. absent presence) þar sem eftirtektarleysi er lykilatriði en nærvera skerðist þrátt fyrir að aðilar sitja augliti til auglits vegna þess að snjallsíminn er í forgrunni.

Árið hefur kennt okkur að meta allt fólkið okkar, saumaklúbbana, matarboðin og meira að segja troðninginn á útsölunum á nýjan hátt. Þegar stundin rennur upp og við megum öll koma saman aftur trúi ég að gæðastundirnar muni einkennast af snjöllum samskiptum í fjarveru snjallsímans. Aldrei er betri tími en á símalausum sunnudögum að æfa þennan sið og hvet ég alla sem lesa þessa grein að taka þátt á morgun.

Höfundur er félagsráðgjafi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×