Íslenski boltinn

Orri Freyr mun stýra Þór Akureyri næstu þrjú árin

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Freyr, nýráðinn þjálfari Þórs Akureyrar.
Orri Freyr, nýráðinn þjálfari Þórs Akureyrar. Þór Akureyri

Orri Freyr Hjaltalín hefur verið ráðinn þjálfari knattspyrnuliðs Þórs Akureyrar sem leikur í Lengjudeild karla. Skrifar hann undir þriggja ára samning við félagið. Tekur Orri Freyr við starfinu af Páli Viðari Gíslasyni.

Greindu Þórsarar frá þessu í dag.

Orri Freyr er uppalinn Þórsari og lék með liðinu alls þrisvar sinnum á ferli sínum. Lék hann fyrst með liðinu árið 1996 og fór með því alla leið upp í efstu deild árið 2002. Árið 2004 lá leiðin til Grindavíkur þar sem hann gerði garðinn frægan. 

Árið 2012 snéri hann aftur á Akureyri og lék með Þór í Pepsi deild karla árin 2012 og 2013. Árið 2015 færði hann svo yfir til Magna á Grenivík og hjálpaði liðinu upp úr 3. deildinni. Árið 2017 sneri hann hann svo enn og aftur til Þórs og lék alls 22 leiki í deild og bikar. Árin 2018 og 2019 færði hann svo sig aftur til Grindavíkur þar sem hann lék með neðstu deildarliði GG. 

Eftir alls 368 leiki og 72 mörk í deild, bikar og Evrópu á ferlinum ákvað Orri að kalla þetta gott og leggja skóna á hilluna. Tók hann sér frí nú í sumar en er nú mættur aftur til Þórs, að þessu sinni sem þjálfari. 

Þór Akureyri var í 5. sæti Lengjudeildarinnar er öllum Íslandsmótum í knattspyrnu var hætt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×