Opinber eftirlitsnefnd með kosningum í Bandaríkjunum segir að forsetakosningarnar sem fram fóru þar á dögunum hafi verið „þær öruggustu í sögu Bandaríkjanna“, og hafna þeir þannig alfarið ásökunum Donalds Trump forseta um víðtækt kosningasvindl.
Í yfirlýsingu frá nefndinni, sem er hluti af Heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna, segir að engin sönnunargögn séu fyrir því að atkvæði hafi verið þurrkuð út eða þau týnst og að ekkert bendi til að atkvæðum hafi verið breytt eða átt við þau að neinu leyti. Yfirlýsingin kemur í kjölfarið á tísti forsetans þar sem hann hélt því fram að 2,7 milljónum atkvæða sem fallið hafi í hans hlut hafi verið „eytt“.
REPORT: DOMINION DELETED 2.7 MILLION TRUMP VOTES NATIONWIDE. DATA ANALYSIS FINDS 221,000 PENNSYLVANIA VOTES SWITCHED FROM PRESIDENT TRUMP TO BIDEN. 941,000 TRUMP VOTES DELETED. STATES USING DOMINION VOTING SYSTEMS SWITCHED 435,000 VOTES FROM TRUMP TO BIDEN. @ChanelRion @OANN
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) November 12, 2020
Nefndin, sem ber nafnið CISA (Committee of Cybersecurity and Infrastructure Security Agency) segir að þrátt fyrir fjölmargar fullyrðingar um svindl í kosningunum vilji nefndin árétta við almenning að þar á bæ hafi menn fullt traust á framkvæmd kosninganna. Yfirmaður nefndarinnar Christopher Krebs, segist reyndar búast við að hann verði rekinn af Trump stjórninni vegna þessa, en aðstoðarforstjórinn hefur þegar verið rekinn.