Kona sem heldur úti instagramsíðu um stafrænt kynferðisofbeldi segir hundruð ungra kvenna hafa sent sér reynslusögur af slíku ofbeldi. Það vanti úrræði og auka þurfi kynfræðslu.
Talið er að fimmta hvert barn sendi af sér nektarmyndir og að stór hluti þeirra fari í frekari dreifingu en upphaflega var ætlað. Í Kompás er rætt við tvær ungar konur sem báðar lentu í því sem börn að senda af sér nektarmynd sem fór í frekari dreifingu. Mynd af Rebekku Ellen endaði á klámsíðu.
„Og upplifunin að sjá eða vita af einhverjum myndum af þér inni á klámsíðu. Það er ekki góð tilfinning,“ segir Rebekka Ellen í Kompás. Sjá má þáttinn hér að neðan.
Vöntun á úrræðum
Sólborg Guðbrandsdóttir heldur úti síðunni Fávitar á Instragram og fær reynslusögur frá ungu fólki nánast á hverjum degi.
„Þær sögur sem ég fæ sendar til mín eru brotabrot af því sem er að gerast þarna úti þannig þetta er ótrúlegt magn. Það sem einkennir þær sögur sem ég hef fengið til mín er að fólk virðist nota þetta sem kúgunartæki, ef þú sendir mér ekki nýja mynd þá gerist þetta og þetta," segir Sólborg sem segir að sögurnar og fyrirspurnirnar hlaupi á hundruðum.
„Það að þau séu að leita til mín sýnir skýrt að það vantar úrræði þannig það er eitthvað sem mætti alveg skoða,“ segir Sólborg.
Auka þurfi kynfræðslu
Þá sé misjafnt hvort og hversu mikla kynfræðslu börn og ungmenni fá í dag.
„Þetta virðist því miður vera eftir hentugsemi skólastjórnenda og foreldrafélaga og það er kerfi sem gengur eiginlega ekki upp,“ segir Sólborg.
Hún segir mikilvægt að fólk átti sig á því að það að taka af sér nektarmynd og senda sé ekki glæpur. „Það að dreifa þeim er glæpur,“ segir hún.
Í Kompás kemur fram að íslensk börn sem senda af sér nektarmyndir séu allt niður í sjö ára og eru mörg málanna mjög gróf. Dæmi eru um að ókunnugir karlmenn þvingi börn til að senda af sér kynferðislegt myndefni.
„Til dæmis fá þeir börnin til að blanda inn öðrum einstaklingum, vinkonum eða vinum, og þau gera eitthvað við líkama hvors annars. Jafnvel eru börnin látin gera eitthvað við yngri systkini. Þetta eru alls kyns innþrengingar eða sjálfsfróun,“ segir Ólöf Farestveit, forstöðumaður Barnahúss.