Innlent

Aðmírállinn skoðaði öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli

Birgir Olgeirsson skrifar
Robert Burke aðmíráll, yfirmaður bandariska flotans í Evrópu og Afríku.
Robert Burke aðmíráll, yfirmaður bandariska flotans í Evrópu og Afríku. Mynd/bandaríska sendiráðið

Robert Burke, aðmírall og yfirmaður bandaríska flotans í Evrópu og Afríku, skoðaði öryggissvæði Keflavíkurflugvallar í gær. Hann fékk leiðsögn frá Georg Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar, en Landhelgisgæslan rekur öryggissvæðið.

„Við sýndum honum svæðið,“ segir Georg í samtali við Vísi en Burke skoðaði flest allar byggingar og flugskýli svæðisins.

Sex kafbátaleitarflugvélar, af gerðinni Poseidon P-8, eru á öryggissvæðinu þessa dagana og heilsaði Burke upp á áhöfnina. Ástæðan fyrir því að svo margar kafbátaleitarflugvélar eru öryggissvæðinu er sú að nú standa yfir áhafnaskipti en bandaríski sjóherinn sinnir kafbátaeftirliti frá Keflavíkurflugvelli.

„Við ræddum ekkert sérstakt,“ segir Georg um samskipti sín við Robert Burke. Þeir hafi átt kurteisisspjall áður en Burke var fylgt um svæðið.

Burke hefur viðrað möguleika á því að staðsetja kafbátaleitarflugvélar á Íslandi til að fylgjast með vaxandi umsvifum rússneskra kafbáta í Norður-Atlantshafi og hugsanlega koma að hafnarframkvæmdum fyrir leit og björgun á Austurlandi.

Georg segir slíkt ekki hafa verið rætt þegar Burke heimsótti öryggissvæðið í gær.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×