Viðskipti innlent

Allt starfsfólk í úrvinnslusóttkví tveimur dögum eftir opnun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjávarhornið er til húsa að Bergstaðastræti 14.
Sjávarhornið er til húsa að Bergstaðastræti 14. Sjávarhornið

Allt starfsfólk fiskverslunarinnar Sjávarhornsins við Bergstaðastræti hefur verið sett í úrvinnslusóttkví. Verslunin opnaði á mánudag og hafði því aðeins verið starfrækt í tvo daga áður en til sóttkvíarinnar kom.

Frá þessu greinir verslunin sjálf á Facebook-síðu sinni í dag. Þar segir að kórónuveirusmit hafi komið upp hjá einhverjum tengdum starfsfólki og nú fyrir skömmu hafi þær upplýsingar borist að starfsmenn þurfi að fara í úrvinnslusóttkví.

„Við viljum leggja áherslu á það að snertifletir hafa ávallt verið sótthreinsaðir, allt okkar starfsfólk með hanska og við vandað okkur eftir fremsta megni. Við lifum á sérstökum tímum og því geta hlutir sem þessir komið upp á,“ segir í færslu verslunarinnar. Þess er þó ekki getið hversu marga starfsmenn er um að ræða.

„Við tökum enga sénsa, það er bara þannig og sendum því allt okkar starfsfólk heim þangað til að smitrakningarteymið hefur lokið sínum störfum. Við látum ykkur vita um leið og okkur er óhætt að opna aftur svo það sé pottþétt að engin sé útsetur fyrir smiti.“

Líkt og áður segir hóf Sjávarhornið rekstur á mánudag og því hafði verslunin aðeins staðið opin í tvo daga áður en þurfti að loka aftur vegna sóttkvíar. Verslunin er til húsa að Bergstaðastræti 14, þar sem verslunin Kjöt og fiskur var áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×