Fangageymslur lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu voru tómar snemma í morgun sem þykir sæta tíðindum. Samkomubann og takmarkanir á starfsemi veitinga- og öldurhúsa hefur nú verið í gildi um nokkurra vikna skeið.
Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem var send til fjölmiðla um klukkan 5:00 í morgun kom fram að fangageymslurnar hafi verið tómar frá því í gærdag. Hallgrímur Hallgrímsson, varðstjóri á lögreglustöðinni við Hverfisgötu, skrifar að hann muni ekki til þess að það hafi áður gerst á aðfaranótt sunnudags.
Með reglugerð heilbrigðisráðherra um takmarkanir á samkomum vegna kórónuveirufaraldursins eru krár og skemmtistaðir lokaðir. Þá mega veitingastaðir aðeins verið opnir til klukkan 21:00 á kvöldin. Þá er almennt bann við samkomum fleiri en tuttugu manna í gildi.