Skoðun

Áfram stelpur!

Tatjana Latinovic skrifar

45 ár eru liðin frá Kvennafrídeginum, þegar um 90% kvenna á Íslandi lögðu niður vinnu og um 25.000 konur söfnuðust saman á útifundi á Lækjartorgi í einum fjölmennasta útifundi Íslandssögunnar. Konur söfnuðust einnig saman víða um land til að leggja áherslur á mikilvægt vinnuframlag kvenna.

Kvennafrídagurinn 1975 vakti gríðarlega athygli erlendis og hefur öðlast sess í sögu alþjóðlegrar kvenréttindabaráttu. Baráttufundir í tilefni dagsins hafa verið haldnir fimm sinnum á síðastliðnum árum, 1985, 2005, 2010, 2016 og 2018.

Árið 2005 voru konur hvattar til að leggja niður vinnu kl. 14:08, en tímasetning verkfallsins var reiknuð út frá mun á heildarlaunum kynjanna. Árið 2010 sýndu útreikningar að konur hafi unnið fyrir kaupinu kl. 14:25, enda höfðu þær tæplega 66% af heildarlaunum karla. Tímasetningin árið 2016 var 14:38 og 2018 14:55. Í ár gætu konur stimplað sig út með góðri samvisku kl. 15:01, enda eru þær enn með 25% lægri atvinnutekjur að meðaltali en karlar.

En konur með góða samvisku munu ekki gera það á þessum Kvennafrídegi. COVID-19 hefur herjað á okkur allt þetta ár og ekki sést í endann á þeirri farsótt. Í faraldrinum hafa ýmis störf verið skilgreind sem lykilstörf í samfélaginu, eins og heilbrigðis- og umönnunarstörf, þrif og kennsla. Í þessari skilgreiningu fellst vissulega viðurkenning á mikilvægi þessara starfa, en henni fylgir því miður ekki viðleitni að leysa undirmönnun og undirfjármögnun þeirra.

Á heimsvísu eru konur um 70% þeirra sem starfa í heilsugæslu og við félagsþjónustu og þær eru í meirihluta þeirra sem nú standa í framlínunni í baráttunni við sjúkdóminn. Líka á Íslandi.

Kvennastörf eru undirstaða samfélags okkar, undirstaða vinnumarkaðarins. En þrátt fyrir að vera nú viðurkennd sem lykilstörf í samfélaginu, hafa þessi störf í áratugi verið metin minna virði en önnur störf þar sem karlar eru í meirihluta.

Konur bera líka ennþá í dag hitann og þungann af umönnun barna og aldraða, og án dagvistunar og hjúkrunarheimila og án ólaunaðrar vinnu kvenna á heimilum væri ekki hægt að halda vinnumarkaðnum gangandi. Án þeirra væri íslenskt samfélag óstarfhæft. Konur í framlínustörfum munu ekki leggja niður störf sín í dag, á kvennafrídeginum, þrátt fyrir að ærin ástæða sé til.

COVID-19 hefur ekki einungis stefnt heilsu okkar í hættu, heldur einnig velferð okkar og hagsæld. Það er vitað að heimsfaraldurinn hefur ólík áhrif á kynin, farsóttir ýta undir kynjamisrétti og annað ójafnrétti í samfélaginu. Nú er mikilvægt fyrir okkur öll sem unnum jafnrétti að slá ekki af baráttu okkar fyrir betri heimi. Við verðum að tryggja það að kynjajafnrétti verði ekki utanveltu í því samfélagi sem við sköpum í kjölfar faraldursins. Við verðum að tryggja kjarajafnrétti til frambúðar.

Yfirlýsingu Kvennafrís 2020 er að finna á www.kvennafri.is.

Höfundur er formaður Kvenréttindafélags Íslands.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×