Innlent

200 þúsund króna sekt tólf dögum eftir bíl­prófið

Sylvía Hall skrifar
Lögreglan stöðvaði nokkra ökumenn í gær og í nótt.
Lögreglan stöðvaði nokkra ökumenn í gær og í nótt. Vísir/Vlhelm

Sautján ára stúlka var stöðvuð á 148 kílómetra hraða á Miklubraut þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund og verður hún sektuð um 200 þúsund krónur vegna akstursins. Stúlkan hafði aðeins verið með ökuréttindi í tólf daga að því er fram kemur í dagbók lögreglu.

Málið hefur verið tilkynnt foreldrum stúlkunnar sem og barnavernd, en samkvæmt lögreglu má stúlkan vænta þess að verða svipt ökuréttindum.

Þá var ökumaður handtekinn í Kópavogi þar sem hann reyndist vera undir áhrifum áfengis. Þá hafði ökumaðurinn einnig verið sviptur ökuréttindum en hann var látinn laus eftir sýnatöku. Tveir aðrir ökumenn voru stöðvaðir í gær, annar í Hlíðahverfi en hinn í Breiðholti. Annar þeirra hafði verið sviptur ökuréttindum en hinn aldrei öðlast slík, og var sá látinn halda för sinni áfram fótgangandi.

Í Mjódd var óskað eftir aðstoð lögreglu þar sem maður í annarlegu ástandi ógnaði gestum og gangandi. Maðurinn er sagður hafa verið undir áhrifum áfengis og fíkniefna og yfirbugaði lögregla hann á vettvangi. Hann var vistaður í fangaklefa og bíður nú skýrslutöku samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lögregla var einnig kölluð til í Kringlunni þar sem ölvaður einstaklingur var til vandræða á veitingastað. Var viðkomandi vísað út eftir að hann hafði gert upp reikning sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×