Íslenski boltinn

Sáu enga liðsheild eða liðsanda hjá KR

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
KR hefur tapað fjórum leikjum í röð í Pepsi Max-deild kvenna.
KR hefur tapað fjórum leikjum í röð í Pepsi Max-deild kvenna. vísir/hulda margrét

KR steinlá fyrir Þrótti, 5-0, í fallbaráttuslag í Pepsi Max-deild kvenna á sunnudaginn. Þróttarar voru 4-0 yfir í hálfleik.

KR er í neðsta sæti Pepsi Max-deildarinnar og Margrét Lára Viðarsdóttir og Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, sérfræðingar Pepsi Max marka kvenna, eiga erfitt með að sjá Vesturbæjarliðið bjarga sér frá falli, jafnvel þótt það eigi tvo leiki inni. Þær segja að liðsheildin hjá KR sé ekki sterk, eða það sjáist allavega ekki.

„Þegar þú ert í þessari stöðu í deildinni finnst mér að það eigi að vera næg hvatning. Þær eiga leiki inni og geta gert sér mat úr þessu. En miðað við hvernig þær eru að spila og mæta í þennan leik sé ég þær ekki stíga allt í einu upp og spila blússandi bolta. Þetta hefur bara verið slakt í sumar,“ sagði Bára í Pepsi Max mörkum kvenna í gær.

Margrét Lára segir að samstaðan hjá KR-liðinu hafi ekki verið sýnileg í leiknum gegn Þrótti.

„Það er von- og trúleysi yfir þessu. Maður sá þegar leikmenn gengu af velli að það fór enginn til hver annars til að hvetja. Þegar flautað var af löbbuðu allir í sitt hvora áttina. Maður sá enga liðsheild eða liðsanda. Maður reynir að hjálpa félaganum og það hefur örugglega gerst eitthvað inni í klefa eftir leik,“ sagði Margret Lára.

„Maður vill taka utan um félagann og segja að þetta verði allt í lagi. Það er svo ofboðslega óþægilegt að finna að maður sé einn í þessu og lítil samstaða. Nú er maður að geta í eyðurnar. Það getur vel verið að það sé samstaða þarna en tilfinningin sem maður fær er lán- og vonleysi og svolítil uppgjöf, því miður. Maður finnur til með þeim. Þetta er erfið staða að vera í, ekki spurning, en það er engin önnur leið fyrir þær en upp á við.“

KR er með tíu stig í tíunda og neðsta sæti Pepsi Max-deildarinnar, sjö stigum frá öruggu sæti. KR-ingar eiga fjóra leiki eftir en öll hin liðin í fallbaráttunni tvo.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Umræða um KR

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×