Íslenski boltinn

Getur ekki beðið um meira en 2-3 færi til að skora á móti liði eins og KA

Árni Jóhannsson skrifar
Viktor Karl skoraði eina mark Breiðabliks í kvöld.
Viktor Karl skoraði eina mark Breiðabliks í kvöld. Vísir/HAG

Leikið var í 14. umferð Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í kvöld. Breiðablik og KA skildu jöfn á Kópavogsvelli og Viktor Karl Einarsson - markaskorari Blika - var svekktur í leikslok. Hann vildi öll þrjú stigin.

„Já ég held að það sé alveg óhætt að segja það svona beint eftir leik þá er þetta mjög svekkjandi. Við vorum með leikinn í okkar hendi en þeir gera svo sem vel í því sem að þeir lögðu upp með. Voru þéttir en á móti liði eins og KA sem liggja vel til baka þá getur þú ekki beðið um meira en tvö til þrjú færi til að skora. Við fáum þessi færi og við verðum bara að nýta þau.“

Viktor fékk eitt af þessum færum og nýtti það vel þegar hann skoraði framhjá Kristijan Jajalo sem átti fínan leik í markinu. Hann segist ekki muna mikið eftir markinu en að þetta hafi snúist um að keyra á vörnina og þegar hann sá á markið lét hann bara vaða með mestum hugsanlegum árangri í nærhornið.

Um framhaldið og hvað stigið þýði fyrir Blika sagði Viktor: 

„Við erum náttúrlega bara í þessari Evrópubaráttu og ég held að eins og leikurinn spilaðist þá tökum við það bara með okkur enda stutt á milli leikja. Við þurfum að taka kraftinn með okkur í næsta leik á móti Fylki á sunnudaginn. Það verður hörkuleikur enda Fylkir með frábært lið og líka í baráttunni um Evrópusæti þannig að við verðum bara að taka allt með okkur og vinna Fylki á sunnudaginn.“

Viktor nefndi að stutt væri á milli leikja en hvernig er það fyrir leikmanninn í Pepsi Max deildinni. Nú er kominn október, það er kalt og allra veðra vona. Er þetta orðið erfitt fyrir leikmennina eða eru menn bara að reyna að harka í gegnum þetta til að klára mótið.

„Fyrir mér er þetta draumur. Það eru bara tvær æfingar og svo bara leikur og það er eitthvað sem ég held að allir vilji. Allavega ég. Þetta er bara gaman að spila leikina. Það er endurheimt á morgun, æfing á hinn og svo leikur. Ég get ekki kvartað,“ sagði Viktor að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×