Innlent

„Áttum að heyra stefnu­ræðu en í staðin fengum við varnar­ræðu ríkis­stjórnarinnar“

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var gagnrýnin á ríkisstjórnina í ræðu sinni á Alþingi í kvöld.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var gagnrýnin á ríkisstjórnina í ræðu sinni á Alþingi í kvöld. Vísir/Vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, var gagnrýnin á ríkisstjórnarinnar í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld. Hún sagði Katrínu Jakobsdóttur hafa í sinni ræðu réttlætt það að ríkisstjórnin hafi tekið lítil skref í stað stórra skrefa í viðbrögðum við kórónuveirufaraldrinum.

Hún segir „varnarræðuna“ hvorki hafa veitt þjóðinni leiðsögn né von um hvernig við færum út úr erfiðleikunum sem faraldrinum fylgdu. Hvernig taka ætti utan um fólkið, félagslega, efnahagslega og andlega. Hvernig halda ætti lífinu í litlu og meðalstóru fyrirtækjunum og verja störfin.

„Ræðan sendi ekki skilaboð til Suðurnesjanna þar sem atvinnuleysi er nú um 20 prósent, til unga fólksins sem á erfiðara en áður að fá vinnu, til listamanna sem fótum hefur verið kippt undan eða einyrkja,“ sagði Þorgerður.

Horfa má á beina útsendingu frá eldhúsdagsumræðunum hér.

Segir tillögu um auðlindaákvæði auka líkur á að sameign þjóðar verði séreign fárra

Hún sagði allt samræmi vanta á milli sóttvarnaráðstafana og efnahagsráðstafana. Verði stóru skrefin ekki tekin strax sé ríkisstjórnin að „bjóða þjóðinni upp á langvarandi kreppu.“

„Þótt ríkisstjórnin telji það lögmál að vera alltaf einu skrefi á eftir veirunni þá þarf það ekki að vera svo,“ sagði Þorgerður. „Veikleikar stjórnarinnar, sem reist var á þeirri einu hugsun að halda hlutum óbreyttum, verða augljósir þegar óvæntar aðstæður og áskoranir koma upp.“

Þá fjallaði Þorgerður, líkt og fleiri, um stjórnarskrána og sagði hún stjórnarflokkana og Miðflokkinn hafa lofað útgerðinni að koma ákvæði án tímabindingar veiðiréttar í gegn.

„Tillagan sem nú liggur fyrir er merkingarlaus. Breytir engu. Hún tryggir ekki þjóðareignina. Ef eitthvað er eykur hún líkur á að sameign þjóðar verði séreign fárra. Við því verður að spyrna,“ sagði Þorgerður.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×