Innlent

Stöðvuðu fíkniefnaræktun í austurborginni

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ýmis verkefni komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt.
Ýmis verkefni komu inn á borð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Vísir/Vilhelm

Skömmu eftir klukkan fimm síðdegis í gær var lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynnt um umferðarslys á gatnamótum Háaleitisbrautar og Kringlumýrarbrautar.

Þar hafði verið ekið á gangandi vegfaranda en bifreiðinni var ekið af vettvangi. Sá sem slasaðist er 16 ára gamall piltur og fór faðir hans með hann á slysadeild.

Ekki er vitað um meiðsl hans að því er segir í dagbók lögreglu en bíllinn fannst um miðnætti og er málið í rannsókn.

Klukkan hálfníu í gærkvöld fór lögreglan síðan í húsleit í austurborginni þar sem grunur var um ræktun fíkniefna.

Lagt var hald á 77 plöntur og talsvert magn af tilbúnum efnum en ekki kemur fram í dagbók lögreglu nákvæmlega um hvers konar plöntur var að ræða eða efni. Sakborningur afsalaði sér öllum búnaði til eyðingar.

Laust eftir klukkan hálfþrjú í nótt barst lögreglunni síðan tilkynnt um mann með hnífa í Hlíðahverfi í Reykjavík.

Þegar lögregla hafði afskipti af manninum var hann búinn að leggja frá sér hnífana en hann er grunaður um brot á vopnalögum og vörslu fíkniefna.

Um klukkan hálfsjö í gærkvöldi óskaði síðan vagnstjóri hjá Strætó eftir aðstoð í Mosfellsbænum þar sem maður var meðal annars búinn að skemma neyðarútgang vagnsins.

Lögregla kom á vettvang og viðurkenndi maðurinn eignaspjöllin. Var honum kynnt að hann yrði kærður fyrir verknaðinn.

Þá voru nokkrir ökumenn teknir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×