Íslenski boltinn

Segja uppgang Tindastóls stórkostlegan

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Murielle Tiernan hefur leikið með Tindastóli í þrjú ár. Hún er langmarkahæst í Lengjudeildinni með 22 mörk.
Murielle Tiernan hefur leikið með Tindastóli í þrjú ár. Hún er langmarkahæst í Lengjudeildinni með 22 mörk. vísir/sigurbjörn andri óskarsson

Helena Ólafsdóttir og sérfræðingar hennar í Pepsi Max mörkum kvenna fagna því að fá Tindastól í Pepsi Max-deild kvenna.

Tindastóll tryggði sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn með 0-4 útisigri á Völsungi í síðustu viku. Stólarnir eru á toppi Lengjudeildarinnar með 43 stig, fjórum stigum á undan Keflvíkingum sem eru einnig öruggir með sæti í Pepsi Max-deildinni að ári.

„Það er ekki langt síðan liðið féll niður í 2. deild og uppgangurinn síðustu ár hefur verið stórkostlegur,“ sagði Mist Rúnarsdóttir í Pepsi Max mörkum kvenna í gær.

„Þetta er ofboðslega öflugt þjálfarateymi þeir Jón Stefán og Guðni Þór mynda. Þeir hafa haldið í erlendu leikmennina sem hafa gefið liðinu mikið. Á sama tíma eru íslensku leikmennirnir að bæta sig mikið og þeir hafi verið klókir að fá lánskonur frá Akureyri. Þetta er ofboðslega spennandi lið sem hefur verið búið til þarna. Mér finnst þetta fyllilega verðskuldað.“

Mist segir að þessi árangur Tindastóls komi ekki á óvart. Í fyrra, þegar Tindastóll var nýliði í Lengjudeildinni, var liðið hársbreidd frá því að komast upp í Pepsi Max-deildina. Í ár kláruðu Stólarnir svo dæmið.

„Fólk þorði kannski ekki að segja það upphátt að það spáði þeim upp í sumar en ég held að þetta komi engum á óvart sem hefur fylgst með Tindastólsliðinu síðustu tvö tímabil,“ sagði Mist.

Margrét Lára Viðarsdóttir segir að það sé frábært fyrir Sauðárkrók að eiga loksins lið í efstu deild í fótbolta.

„Þetta er stórkostlegt fyrir svona lítið samfélag eins og Sauðárkrókur er. Að eiga lið í efstu deild, spáiði bara í uppganginum verður mögulega á kvennaboltanum í svona samfélagi,“ sagði Margrét Lára.

Klippa: Pepsi Max mörk kvenna - Umræða um Tindastól

Tengdar fréttir

Hafa áhyggjur af KR og segja liðið andlaust

KR er á botni Pepsi Max-deildar kvenna en á enn eftir að leika þriðjung sinna leikja, þegar 19 dagar eru til stefnu, þar sem liðið hefur í þrígang farið í sóttkví í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×