Samkomulag hefur náðst um myndun nýrrar sjö flokka stjórnar í Belgíu, nærri fimm hundruð dögum eða sextán mánuðum eftir að þingkosningar fóru fram í landinu. Alexander De Croo, leiðtogi Flæmska frjálslynda flokksins, verður næsti forsætisráðherra landsins.
Samstarfið hefur verið kallað Vivaldi-bandalagið og samanstendur af flokkum frjálslyndra, sósíalista og græningja úr frönskumælandi hluta landsins annars vegar og flæmskumælandi hlutanum hins vegar, auk hinna flæmskumælandi Kristilegra demókrata. De Croo mun taka við embætti á morgun.
Starfsstjórn hefur stýrt landinu frá kosningum í maí 2019 og hefur hin frönskumælandi Sophie Wilmes gegnt embætti forsætisráðherra síðustu mánuði.
Tilkynnt var um myndun nýrrar stjórnar í morgun eftir maraþonviðræður leiðtoga flokkanna um samsetningu fjárlaga.
Hinn 44 ára De Croo hefur gegnt embætti fjármálaráðherra Belgíu frá árinu 2018. Þá hefur hann áður gegnt embætti þróunarsamvinnumála, aðstoðarforsætisráðherra og lífeyrismálaráðherra.
Þjóðernisflokkurinn Nýja flæmska fylkingin, sem hlaut flest atkvæði í kosningunum, eða 16 prósent, á ekki aðild að nýju stjórninni. Sömu sögu er að segja um hægriöfgaflokkinn Vlaams Belang sem hlaut 12 prósent atkvæða.
Það er engin nýlunda að langan tíma taki að mynda ríkisstjórn í Belgíu. Þannig tók það 541 að mynda stjórn í landinu eftir þingkosningarnar 2010.