Innlent

Fjórir erlendir ferðamenn handteknir, grunaðir um brot á sóttkví

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn sem bregðast við útköllum um brot á sóttkví eru klæddir í hlífðarbúnað og grímur.
Lögreglumenn sem bregðast við útköllum um brot á sóttkví eru klæddir í hlífðarbúnað og grímur. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Erlendur ferðamaður sem var handtekinn á Laugavegi í Reykjavík í gærkvöldi er grunaður um brot á sóttkví. Maðurinn er sagður hafa verið afar ölvaður og reynt að efna til slagsmála. Þrír aðrir erlendir ferðamenn voru handteknir fyrir að brjóta sóttkví í gærkvöldi.

Tilkynnt var um ölvaða ferðamanninn skammt fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu segir að hann hafi verið mjög ölvaður og verið með „dólg“ við lögreglumenn. Maðurinn, sem var nýkominn til landsins, hafi neitað að gefa upp nafn og verið án skilríkja. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglunnar í nótt og er grunaður um brot á sóttkví.

Síðar í gærkvöldi handtóku lögreglumenn þrjá erlenda ferðamenn á veitingahúsi í miðborginni. Þeir eru einnig sagðir hafa verið nýkomnir til landsins og átt að vera í sóttkví. Fólkið var fært á lögreglustöð til skýrslutöku en lögreglan segist hafa verið búin að hafa afskipti af því áður þegar tilkynnt var um að það bryti sóttkví. Það er sagt eiga bókaða flugferð frá landinu á morgun.

Lögreglan gerði engar athugasemdir við sóttvarnir þeirra veitingastaða í Reykjavík sem höfðu heimild fyrir opnun og þá voru allir þeir staðir sem áttu að vera lokaðir vegna sóttvarnalaga lokaðir. Í Hafnarfirði var sömu sögu að segja. Þeir sex staðir sem höfðu heimild til að hafa opið virtu sóttvarnarlög en tveir aðrir voru lokaðir eins og þeim bar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×