Opinber minningarathöfn um Ruth Bader Ginsburg, bandaríska hæstaréttardómaranna sem andaðist á föstudag, fer fram í Washington-borg í dag. Ginsburg er fyrsta konan og fyrsti gyðingurinn til að liggja á viðhafnarbörum í bandaríska þinghúsinu.
Þúsundir manna hafa vottað Ginsburg virðingu í vikunni en líkkista hennar hefur legið til sýnis í hæstaréttarbyggingunni. Baráttu hennar fyrir jafnrétti kynjanna og borgararéttindum hefur verið minnst frá því að hún lést úr briskrabbameini fyrir viku, 87 ára að aldri. Ginsburg var aðeins önnur konan til að gegna embætti hæstaréttardómara þegar Bill Clinton skipaði hana árið 1993.
Joe Biden, fyrrverandi varaforseti og forsetaframbjóðandi Demókrataflokksins, ferðast til Washington í dag til að votta Ginsburg virðingu sína. Hópur fólks gerði hróp að Donald Trump forseta þegar hann gerði slíkt það sama í Hæstarétti ásamt konu sinni Melaniu í gær.
Reuters-fréttastofan segir að fólk hafi heyrst hrópa: „Kjósið hann burt!“ að forsetanum. Mikil spenna ríkir nú í bandarískum stjórnmálum þar sem Trump og repúblikanar keppast við að staðfesta eftirmann Ginsburg við réttinn fyrir kjördag. Takist þeim það myndi hæstiréttur hneigjast verulega í íhaldsátt, að líkindum til næstu áratuganna.
Trump gerði sjálfur lítið úr mótmælunum gegn sér. „Ég held að þetta hafi bara verið pólitísk köll. Við heyrðum þau varla þar sem við vorum,“ sagði hann við fréttamenn. Kayleigh McEnany, blaðafulltrúi Hvíta hússins, fordæmdi þá sem hrópuðu að forsetanum og sagði köllin „hræðileg og dónaleg“.

Útförin í næstu viku
Kista Ginsburg hvílir á viðhafnarbörum í þinghúsinu í dag en þann heiður fá aðeins forsetar og þingmenn. Hún verður annar hæstaréttardómarinn í sögunni sem fær þann heiður á eftir William Taft en hann var einnig forseti Bandaríkjanna.
Síðast hvíldi John Lewis, fulltrúadeildarþingmaðurinn og blökkumannaleiðtoginn, á viðhafnarbörum í þinghúsinu í júlí.
Minningarathöfnin í dag verður aðeins opin þeim sem fá sérstakt boð. Sá háttur er hafður á vegna kórónuveirufaraldursins
Ginsburg verður grafin í einkagrafreit í Arlington-þjóðargrafreitnum í Virginíu rétt utan við Washington-borg í næstu viku, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
